Hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélags Íslands – Gunnar Thoroddsen og dómur sögunnar

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og lektor við Háskólann í Reykjavík flytur fyrirlesturinn: „Gunnar Thoroddsen og dómur sögunnar“ í hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins “Hvað er dómur sögunnar?”, þriðjudaginn 13. apríl næstkomandi kl. 12.05. Sem fyrr verður fyrirlesturinn fluttur í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.
Í erindinu verður rætt um stjórnmálaferil Gunnars Thoroddsens og þá dóma sem felldir hafa verið um hann.
Líkt og áður er aðgangur ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm Þjóðminjasafnsins leyfir.

Um erindið:
Gunnar Thoroddsen var án efa með merkustu stjórnmálamönnum á Íslandi á síðustu öld. Hann var þó umdeildur, einkum í eigin flokki. Í erindinu verður rætt um stjórnmálaferil Gunnars Thoroddsens og þá dóma sem felldir hafa verið um hann.
Gunnar Thoroddsen fæddist í Reykjavík árið 1910. Að loknu lagaprófi árið 1934 varð hann alþingismaður um skeið, svo lögmaður á eigin stofu og starfsmaður Sjálfstæðisflokksins; bæjarfulltrúi, lagaprófessor og borgarstjóri; þá fjármálaráðherra og varaformaður flokks síns, og sendiherra eftir að hann hvarf um stund af vettvangi stjórnmálanna. Hann tók síðan doktorspróf í lögum og varð hæstaréttardómari og prófessor á nýjan leik, endurkjörinn til Alþingis, þingflokksformaður og aftur varaformaður sjálfstæðismanna. Eftir það varð hann iðnaðar- og félagsmálaráðherra og að lokum varð hann forsætisráðherra og sat í því embætti árið 1983, nær hálfri öld eftir að hann settist fyrst á þing. Fáir geta státað af jafnfjölbreyttri starfsævi, enginn mun feta í öll þessi fótspor Gunnars Thoroddsens.
Þrátt fyrir ýmsa upphefð voru þau þó tvö embættin sem Gunnar vildi gegna en fékk aldrei. Hann laut í lægra haldi í forsetakjöri og ekki varð hann heldur formaður Sjálfstæðisflokksins þótt hugur hans stæði lengi til þess. Gunnari fannst enda að hann hefði ekki náð markmiði lífs síns fyrr en hann settist í stól forsætisráðherra. Þá fyrst sýndist honum að arfleifð hans væri tryggð og það þótti honum mikils um vert.
En hver er og verður dómur sögunnar um Gunnar Thoroddsen? Hverjir hafa fellt dóma um hann og hvers vegna? Í erindinu verða þessar spurningar nokkurs konar þungamiðja sem annað snýst um.