Fyrsti einstaklingurinn? Myndirnar af Guðbrandi Þorlákssyni í ljósi mannskilnings endurreisnarinnar

Þriðjudaginn 18. mars klukkan 12:05 verður ausið úr viskubrunnum í Þjóðminjasafni Íslands. Ármann Jakobsson íslenskufræðingur fjallar meðal annars um málverk af Guðbrandi Þorlákssyni biskupi með hliðsjón af mannskilningi endurreisnartímans.

Ingólfur Arnarson, Gunnar á Hlíðarenda, Guðrún Ósvífursdóttir, Ari fróði, Snorri Sturluson, Ólöf ríka og Jón Arason, – allir frægustu einstaklingar fyrstu sjö alda Íslandssögunnar eiga það sameiginlegt að engin samtímamynd er til af þeim og nánast engin leið að vita með vissu hvernig þau litu út. En í upphafi 17. aldar bætist við Íslandssöguna einstaklingur sem margar andlitsmyndir eru til af. Guðbrandur Þorláksson biskup og biblíuþýðandi lét mála af sér margar myndir í ellinni, næstum á hverju ári.
Gaman er að velta fyrir sér hverju það sætir og hvort það tengist nýjum mannsskilningi endurreisnartímans.
Ausið er úr viskubrunnum í Þjóðminjasafninu annan hvorn þriðjudag í hádeginu. Sérfræðingar bæði innan safns og utan taka þá fyrir afmarkaða hluta grunnsýningar og sérsýninga.
Leiðsagnirnar eru ætlaðar öllum almenningi og hafa mælst fyrir. Fólk er hvatt til að fjölmenna næstkomandi þriðjudag og hlusta á lifandi frásögn Ármann Jakobssonar.