Framandi trú og kristnar rætur Íslands: Óttinn við að glata íslenskri menningu í fjölmenningarlegu samfélagi

Þriðjudaginn 9. desember flytur Kristín Loftsdóttir mannfræðingur hádegisfyrirlesturinn Framandi trú og kristnar rætur Íslands: Óttinn við að glata íslenskri menningu í fjölmenningarlegu samfélagi.
Fyrirlesturinn er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands Hvað er að óttast?
Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og standa frá klukkan 12.05 til klukkan 12.55. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

Í lýsingu á efni erindisins segir:
Lagt var til í frumvarpi um ný grunnskólalög árið 2007 að tekin væri út áhersla á að starfshættir skóla ættu að mótast af kristilegu siðgæði.  Þessi fyrirhugaða breyting virðist að einhverju leyti hafa hrundið af stað víðtækari umfjöllun um kristinfræðslu og tengingu kristinnar trúar við íslenska menningu, enda var í samþykktum lögum búið að bæta aftur inn kristinni áherslu í kafla um starfshætti skóla. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þau sterku viðbrögð sem tillögurnar af nýjum grunnskólalögum vöktu og þeirri sýn sem þau bregða upp af  tengslum íslenskrar menningar og kristinnar trúar.  Var í þessari umræðu litið á aukna fjölmenningu sem einhverskonar ógn við íslenska menningu?