Erindi um vestfirskan seljabúskap

Þriðjudaginn 6. nóv. mun Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri halda erindi í Snorrastofu um vestfirskan seljabúskap. Um er að ræða samvinnuverkefni Snorrastofu og Landbúnaðarsafns Íslands á Hvanneyri, en fyrirlesturinn er hluti sk. Fyrirlestra í héraði, sem Menningarsjóður Borgarbyggðar styrkir.
Fyrirlesturinn verður fluttur í Bókhlöðusal Snorrastofu í Reykholti og hefst
kl. 20.30. Aðgangseyrir er 500 kr. og eru veitingar í hléi innifaldar.

Þriðjudaginn 6. nóv. mun Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri halda erindi í
Snorrastofu um vestfirskan seljabúskap. Um er að ræða samvinnuverkefni
Snorrastofu og Landbúnaðarsafns Íslands á Hvanneyri, en fyrirlesturinn er
hluti sk. Fyrirlestra í héraði, sem Menningarsjóður Borgarbyggðar styrkir.
Fyrirlesturinn verður fluttur í Bókhlöðusal Snorrastofu í Reykholti og hefst
kl. 20.30. Aðgangseyrir er 500 kr. og eru veitingar í hléi innifaldar.
Bjarni hefur um skeið rannsakað seljabúskap, meðal annars með því að kanna
seljaminjar við Dýrafjörð og heimildir um seljabúskap þar vestra. Í
erindinu mun Bjarni fjalla um hluta niðurstaðna sinna og leitast við að
greina helstu einkenni sýnilegra selmannvirkja og selstaðna þar vestra og
þátt þeirra í nýtingu landsins. Örnefni verða einnig notuð til þess að skýra
hlut seljanna í byggðinni.
Þrátt fyrir og ef til vill vegna þess að landkostir voru takmarkaðir á
þessum slóðum benda niðurstöður rannsóknanna til að seljabúskapurinn hafi á
vissum tímum verið mjög mikilvægur þáttur í framfærslu fólksins.
Í erindinu verða niðurstöðurnar einnig skoðaðar í ljósi almennrar vitneskju
um seljabúskap til fornar, þar með talið selstöður í Borgarfirði, en unnið
er að rannsóknum á þeim sem hluta af hinu umfangsmikla og þverfaglega
verkefni um Reykholtsstað.
Í lok erindisins mun Bjarni frumflytja lag sitt við ljóð Borgfirðingsins
Snorra Hjartarsonar skálds, Mig dreymir við horfið heiðarsel, úr
ljóðabókinni Á Gnitaheiði, sem út kom árið 1952.
Bjarni Guðmundsson er prófessor við Landbúnaðarháskólann en er jafnframt
forstöðumaður Landbúnaðarsafns Íslands á Hvanneyri. Bjarni er búfræðingur og
búfræðikandidat frá Hvanneyrarskóla og lauk síðan doktorsprófi frá Norges
Landbrukshögskole. Rannsóknir Bjarna hafa einkum verið á sviði fóðuröflunar
og verktækni hennar. Hann hefur einnig fengist við búnaðarsöguleg
viðfangsefni, einkum í tengslum við uppbyggingu Landbúnaðarsafnsins. Hann
skrifaði m.a. ævisögu Halldórs Vilhjálmssonar skólastjóra á Hvanneyri er út
kom fyrir nokkrum árum. Bjarni var formaður stjórnar Snorrastofu árin
1998-2006.