Doktorsvörn í sagnfræði: Náttúrusýn og nýting fallvatna

Föstudaginn 11. júní kl. 13 ver Unnur Birna Karlsdóttir doktorsritgerð við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Fer vörnin fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu.
Unnur Birna leggur fram til doktorsprófs í sagnfræði ritgerðina “Náttúrusýn og nýting fallvatna. Um viðhorf til náttúru og vatnsaflsvirkjana á Íslandi 1900-2008.”
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Um ritgerðina:
Ritgerðin er byggð á ítarlegri rannsókn á umræðu um náttúru og vatnsorku á Íslandi og setur íslenska náttúrusýn jafnframt í samhengi við þær stefnur og strauma í vestrænni náttúrusýn sem skipta máli til að skilja þessa sögu. Tvær meginspurningar eru hafðar að leiðarljósi. Annars vegar spurningin um hvernig íslensk náttúrusýn þróaðist frá því um 1900-2008. Hins vegar spurningin um hvaða þættir búa í náttúrusýn Íslendinga sem leiða til þess að djúpstæður ágreiningur hefur verið um vatnsaflsvirkjanir á síðustu árum.
Efnið í stuttu máli:
Rannsóknin varpar ljósi á náttúrusýn Íslendinga, á 20. öld og fyrstu árum þeirrar 21., eins og hún birtist í umræðu um nýtingu vatnsaflsins. Grein er gerð fyrir hugmyndum um sambúð lands og þjóðar, og um náttúru- og umhverfisvernd. Fjallað er um umræðu um virkjanir allt frá því um 1900 fram til ársins 2008, og dregið fram hvaða sjónarmið stýra rökum manna með og á móti nýtingu fallvatna. Íslensk náttúrusýn er sett í alþjóðlegt samhengi með því að skoða hvernig erlendar hugmyndastefnur sem snerta sögu viðhorfa til náttúru og umhverfismála hafa haft áhrif á íslenska náttúrusýn síðastliðin 100 ár. Sérstakur gaumur er gefinn að því hvernig nýtingarstefna, rómantíska stefnan, þjóðernishyggja og tilteknir þættir í náttúruverndar- og umhverfisverndarhyggju komu við sögu og mótuðu náttúrusýn Íslendinga á rannsóknartímabilinu.
Aðalleiðbeinandi Unnar Birnu var Dr. Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði. Andmælendur eru Dr. Þorvarður Árnason umhverfisfræðingur og Dr. Sigrún Pálsdóttir sagnfræðingur.
Unnur Birna Karlsdóttir er með BA-próf og MA. próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands, auk prófs frá sama skóla í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda í grunn- og framhaldsskóla. Undirstöðu að doktorsritgerðinni aflaði hún sér fyrstu tvö árin í doktorsnáminu, annað árið við Háskóla Íslands og hitt árið við Södertörnsháskóla í Stokkhólmi. Unnur Birna starfar nú sem sérfræðingur á skjalasviði á Þjóðskjalasafni Íslands.