Doktorsvörn í Sagnfræði- og heimspekideild

Föstudaginn 6. febrúar kl. 14 ver Ragnheiður Kristjánsdóttir doktorsritgerð við Sagnfræði- og heimspekideild, í Hátíðarsal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu.
Ragnheiður leggur fram til doktorsprófs í sagnfræði bókina Nýtt fólk. Þjóðerni og íslensk verkalýðsstjórnmál 1901-1944. Bókin fjallar um áhrif þjóðernisstefnu á stjórnmálastarf íslenskrar verkalýðshreyfingar. Hún er byggð á ítarlegri rannsókn á íslenskri stjórnmálaumræðu en jafnframt því erlenda samhengi sem skiptir máli til að skilja þessa sögu.

Niðurstöðurnar eru í stuttu máli þessar:
 
Segja má að á árunum milli stríða hafi stjórnmálabarátta verkalýðsflokkanna tveggja, Alþýðuflokks og Kommúnistaflokks, miðað að því að berjast fyrir viðurkenningu á því að verkafólk væri fullgildir íslenskir borgarar. Í því fólst meðal annars tilraun til að endurmóta íslenska þjóðernisstefnu. Báðir flokkarnir réðust gegn þeim þáttum hennar sem samrýmdust illa sósíalískri stjórnmálaorðræðu, endursögðu þjóðarsöguna og skilgreindu upp á nýtt og á sínum forsendum grunnþætti íslenskrar þjóðernissjálfsmyndar. Engu að síður snerti þjóðernisstefna stjórnmálastarf flokkanna tveggja með mjög ólíkum hætti. Færa má rök fyrir því að þjóðernisstefna hafi átt sinn þátt í að tryggja kommúnista- og síðar sósíalistahreyfinguna í sessi. Áhrifin á Alþýðuflokkinn hafi hins vegar verið þveröfug. Íslensk þjóðernisstefna hafi hindrað vöxt hans.
 
Aðalleiðbeinandi Ragnheiðar var Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði.
 
Andmælendur eru Gunnar Karlsson, prófessor við HÍ, og Rósa Magnúsdóttir, lektor við Árósaháskóla.
 
Ragnheiður Kristjánsdóttir er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og M.Phil.-próf í sömu grein frá Cambridge University. Hún starfar sem aðjunkt í sagnfræði við Háskóla Íslands.