50 ár frá Keflavíkurgöngu – Sýning

Þriðjudaginn 30. mars kl. 17 bjóða Samtök hernaðarandstæðinga til sýningaropnunar í Þjóðarbókhlöðunni. Þá verður formlega sett sýning um sögu Keflavíkurgangna, en göngur þessar settu mikinn svip á íslensk stjórnmál á seinni hluta síðustu aldar.
Allir velkomnir

Í sumar verða fimmtíu ár liðin frá því að efnt var til fyrstu Keflavíkurgöngunnar til að mótmæla veru bandarísks herliðs á Íslandi og aðild landsins að Nató. Hermálið var stærsta pólitíska deilumálið hér á landi á seinni hluta tuttugustu aldar og hafði mikil áhrif á framvindu stjórnmálanna.
Keflavíkurgöngurnar urðu alls ellefu á rétt rúmlega þrjátíu ára tímabili, en sú fyrsta var haldin þann 19. júní 1960. Óhætt er að segja að fáar ef nokkrar pólitískar mótmælaaðgerðir hafi vakið jafn mikla athygli og deilur á þessum tíma. Með því að kanna sögu þessara aðgerða, fæst jafnframt góð mynd af baráttumálum íslenskra friðar- og afvopnunarsinna á tímum kalda stríðsins. Áherslurnar voru ólíkar eftir tímabilum og orðræðan sömuleiðis.
Að tilefni hálfrar aldar afmælisins setja Samtök hernaðarandstæðinga og Landsbókasafn Íslands upp sögusýningu um Keflavíkurgöngur á sýningarsvæðinu í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar við Arngrímsgötu. Sýningin verður formlega opnuð með móttöku kl. 17, þriðjudaginn 30. mars n.k. Gestir og gangandi munu svo geta skoðað sýninguna á opnunartímum safnsins, en á henni má finna mikinn fróðleik um ýmsa þætti herstöðvabaráttunnar auk ljósmynda og skjala.