Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur eys úr viskubrunnum á Þjóðminjasafni Íslands þriðjudaginn 13. nóvember klukkan 12:05

Þriðjudaginn 13. nóvember klukkan 12:05 verður ausið úr viskubrunnum í Þjóðminjasafninu. Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur mun ganga með gestum um sýninguna Á efsta degi – býsönsk dómsdagsmynd á Hólum í Bogasal safnsins. Á sýningunni má sjá fagurlega útskornar fjalir sem taldar eru úr mikilfenglegri dómsdagsmynd sem prýtt hefur dómkirkju Jóns helga Ögmundssonar biskups á Hólum í Hjaltadal. Á sýningunni er gerð tilraun til að endurskapa myndina samkvæmt endurgervingu Harðar Ágústssonar listmálara og fræðimanns.

Þriðjudaginn 13. nóvember klukkan 12:05 verður ausið úr viskubrunnum í Þjóðminjasafninu. Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur mun ganga með gestum um sýninguna Á efsta degi – býsönsk dómsdagsmynd á Hólum í Bogasal safnsins. Á sýningunni má sjá fagurlega útskornar fjalir sem taldar eru úr mikilfenglegri dómsdagsmynd sem prýtt hefur dómkirkju Jóns helga Ögmundssonar biskups á Hólum í Hjaltadal. Á sýningunni er gerð tilraun til að endurskapa myndina samkvæmt endurgervingu Harðar Ágústssonar listmálara og fræðimanns.
Dómsdagsmyndir eru meðal áhrifamestu listaverka sem orðið hafa til í skjóli kirkjunnar. Í kirkjulist er greint milli hins vestræna og austræna eða býsanska dómsdags. Þær snerta sjálfan kjarna kristindómsins, frelsun mannanna og eilífa útskúfun. Íslenska myndin ber ýmis einkenni hins austræna dómsdags þar sem sagt er fyrir um það sem mun gerast þegar englar þeyta básúnur og boða dómsdag. ,,Það sem varðveist hefur af myndinni,” segir Þóra, ,,er einkum skýr mynd af dýrum sem spýta út úr sér líkamspörtum manna, sem þau áður hafa gleypt. Höfuðið á Satan er og greinlegt svo og falleg mynd af Maríu sem biður fyrir mönnunum á dómsdegi.” Dr. Selma Jónsdóttir listfræðingur bar brotin einkum saman við átta býsanskar dómsdagsmyndir sem varðveist hafa úti í heimi og sýndi fram á að þau gætu verið úr sambærilegri íslenskri mynd.
Þóra Kristjánsdóttir hefur rýnt í sögu Jóns helga Ögmundssonar og færir rök fyrir því að hin mikla dómsdagsmynd hafi komið hingað fyrir hans tilverknað. ,,Jón Ögmundsson gerði víðreist um ævina. Hann fæddist 1052 og lést á Hólum 23. apríl 1121. Hann lærði hjá Ísleifi biskupi í Skálholti og fór frá honum til útlanda, þar sem hann dvaldist bæði í Danmörku og Noregi, en einnig leitað hann uppi Sæmund Sigfússon fróða á meginlandinu og hafði hann heim með sér. Jón var síðar útnefndur fyrsti biskup Hólabiskupsdæmis og fór í langa vígsluferð, m.a. alla leið suður til Rómar á fund Paschalis 2. páfa. Á þeim tíma voru náin tengsl milli Rómar og klaustursins á Cassinófjalli sem var helsti tengiliður milli býsanskrar og vestur-evrópskrar listar. Vígslu hlaut Jón í bakaleiðinni hjá Össuri erkibiskupi í Lundi 29. apríl 1106. Menn hafa rýnt í allar frásagnir af ferðum Jóns og reynt að finna staðfestingu á því að hann hafi með einhverjum hætti borið með sér heim fyrirmynd dómsdagsmyndarinnar.“ Þóra bendir meðal annars á frásagnir í Jóns sögu sem gætu falið í sér vísanir til stórrar dómsdagsmyndar í kirkju hans.
Þóra Kristjánsdóttir lauk Fil.kand.-prófi með listasögu sem aðalgrein frá Stokkhólmsháskóla 1967 og MA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1999. Í MA-ritgerð sinni rannsakaði hún listgripi eftir íslenska listamenn frá siðaskiptum fram á 19. öld og byggir bók hennar Mynd á þili – íslenskir myndlistarmenn á 16., 17. og 18. öld á þeim rannsóknum. Þóra starfar sem sérfræðingur í kirkjulist og listgripum fyrri alda á Þjóðminjasafni Íslands.
Fólk er hvatt til að fjölmenna á þessu áhugaverðu leiðsögn í hádeginu þann 13. nóvember