Hagtölur

Skýrslur um landshagi 1858-1875
Með Skýrslum um landshagi hófst regluleg útgáfa á hagskýrslum á Íslandi. Útgefandi var Hið íslenska bókmenntafélag. Þær eru birtar á timarit.is.

Landshagsskýrslur
Opinberar hagskýrslur voru birtar í Stjórnartíðindum B-deild 1877-1881 og síðan C-deild 1882-1898. Varð að sjálfstæðri ritröð undir nafninu Landshagsskýrslur fyrir Ísland á árunum 1899-1912. Þessar skýrslur fyrir árin 1882-1907 er að finna á timarit.is.

Hagskýrslur Hagstofu Íslands
Hagstofa Íslands var stofnuð 1913 og hóf fljótlega að gefa út hagskýrslur eftir efnisflokkum. Á timarit.is er að finna stóran hluta þessarar útgáfu.

Hagtíðindi
Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi síðan 1916. Ritið er aðgengilegt á timarit.is og frá 2004 á hagstofa.is.

Sögulegar hagtölur
Vefur Hagstofu Íslands með hagtölum sem ná áratugi og jafnvel aldir aftur í tímann. Vefurinn sækir efni að miklu leyti í ritið Hagskinnu sem Hagstofan gaf út 1997 og hafa tímaraðirnar verið uppfærðar til samtímans eins og kostur er. Vefurinn inniheldur þó ekki nema hluta af þeim gögnum sem birt eru í Hagskinnu.

Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland
Hagskinna er eitt viðamesta rit Hagstofunnar frá upphafi. Í henni eru tölulegar upplýsingar um íslenskt samfélag og þróun þess eins langt aftur og heimildir ná. Elstu tölur í ritinu ná aftur til upphafs 17. aldar en þær yngstu fram til 1995. Stafrænar myndir af síðum Hagskinnu eru aðgengilegar á baekur.is og á vefnum Sögulegar hagtölur hjá Hagstofu Íslands er hægt að hala niður efni hennar.

Manntalsvefur Þjóðskjalasafns Íslands
Vefurinn hefur að geyma upplýsingar úr manntölum frá 1703 til 1920 um einstaklinga, heimilisstöðu þeirra, búsetu, kyn, hjúskaparstöðu og aldur. Manntölin sem um ræðir eru fjórtán, þ.e. frá árunum 1703, 1816, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890, 1901, 1910 og 1920. Upplýsingar úr Eyjafjarðar-, Þingeyjar- og Múlasýslum úr manntalinu 1870 glötuðust fyrir löngu og er manntalið því ekki heilt.

Verðlagsreiknivél
Á vef Hagstofu Íslands er verðlagsreiknivél sem notar vísitölu neysluverðs til að umreikna kaupmátt íslensku krónunnar frá einum tíma (ári eða mánuði) til annars. Reiknivélin getur t.d. reiknað út hvert verðgildi hlutar sem kostaði 25 krónur árið 1902 er í dag.