Aldarsaga Háskóla Íslands komin út


Í tilefni af 100 ára afmæli HÍ er komin út Aldarsaga Háskóla Íslands 1911–2011. Um er að ræða mjög umfangsmikið og vandað rit, tæplega 900 blaðsíður að lengd og skreytt rúmlega 300 myndum af margvíslegu tagi.
Í bókinni er meðal annars sagt frá fyrirrennurum Háskólans, embættismannaskólunum í Reykjavík, stofnun og skipulagi Háskólans, húsnæðismálum hans, átökum við ríkisvaldið, einkum um stöðuveitingar allt þar til ríkið afsalaði sér valdi yfir þeim um 1990. Sagt er frá róttækri stúdentahreyfingu á árunum í kringum 1970 og nýjum áherslum í menntamálum. Rakið er hvernig áhersla færðist smám saman frá embættismenntun til grunnmenntunar og síðan yfir á rannsóknir og rannsóknartengt nám. Raktar eru breytingar á kennsluaðferðum og námsaðstöðu, einnig aðbúnaði og félagsaðstöðu stúdenta.
Höfundar: Guðmundur Hálfdanarson
 – Sigríður Matthíasdóttir
 – Magnús Guðmundsson
Ritstjóri: Gunnar Karlsson

Nútímaheimilið í mótun – fagurbætur, funksjónalismi og norræn áhrif á íslenska hönnun 1900-1970

Nútímaheimilið í mótun – fagurbætur, funksjónalismi og norræn áhrif á íslenska hönnun 1900-1970


Í ritinu er fjallað um þær breytingar sem urðu á híbýlaháttum Íslendinga þegar hin fjölþjóðlega nútímahreyfing í byggingarlist og hönnun breiddist út á tímabilinu 1900–1970 og tengsl þeirra við norrænan listiðnað og hönnun. Efnið er skoðað frá sjónarhóli módernismans og efnismenningar hvað varðar húsgagnaframleiðslu, neysluhætti og hlutverk sýninga. Hugmyndir um fagurbætur birtust m.a. í heimilissýningum, umræðu um bygginga- og heimilisiðnaðarmál og með innreið vinnuvísinda á heimilum. Greint er hvernig módernismi eða norrænn funksjónalismi mótaði nýja fagurfræðilega sýn á húsakost og híbýlaprýði og átök hefða og nútíma, hins þjóðlega og innflutta, sveita og kaupstaða, eru skýrð með vísun í „útskurðartímabilið“, tilurð stássstofunnar og samkeppni um þjóðleg húsgögn. Sjónum er síðan beint að húsgögnum sem „hlutum“ í nútímavæðingu heimila í kaupstað og sveit. Gerð er grein fyrir forsendum og sögulegum rótum „Scandinavian design“-hreyfingarinnar, norrænni samvinnu um listiðnaðarmál og mikilvægi byggingamála- og heimilissýninga eftir 1945. Tengsl Íslendinga við „Scandinavian design“-hreyfinguna á alþjóðavettvangi upp úr miðjum sjötta áratugnum eru skýrð með þátttöku þeirra í sýningum, hlutverki þeirra sem mótuðu smekk á íslenskum heimilum 1950–1970 og hvernig hönnunarmálum í húsgagnaiðnaði var háttað. Að lokum er sýnt fram á breytingarnar í húsgagnaframleiðslunni með dæmum af sýningum og nokkrum verkstæðum í Reykjavík og á Akureyri þar sem hönnun, ný tækni og efni komu á einhvern hátt að framleiðslunni.
Í rannsókninni er komist að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hafi fylgt hugmyndum nágrannaþjóðanna um fagurbætur og síðar funksjónalisma í húsagerð og híbýlaháttum enda voru þjóðernisleg viðhorf til fagurfræði á heimilum áberandi og tengsl við norrænan heimilis- og listiðnað sterk. Íslendingum tókst hins vegar ekki að tengjast hönnunarhreyfingunni „Scandinavian design“ sem skyldi og skipuðu sér sess á jaðri norrænnar hönnunar á áratugunum eftir stríð. Umbætur í híbýlaháttum voru öðrum þræði fagurfræðilegar og fylgdu erlendum fyrirmyndum í listiðnaði og húsgagnagerð þar sem norræn áhrif vógu þungt. Húsgagnagerð dafnaði helst á tímum hafta og lengst af var handiðnaður mikilvægara afl en hönnun/fjöldaframleiðsla sem skorti tilhlýðilegt félags- og menningarlegt bakland og skilning á samspili listar og iðnaðar. Þátttaka í sýningum á alþjóðavettvangi hófst að ráði með „Scandinavian design“-hreyfingunni. Nýnæmið heima fyrir fólst í mótun smekks í anda norræns funksjónalisma og „Scandinavian design“ frekar en nýsköpun í listiðnaði og hönnun.
 

Af fornum lögum og sögum. Fjórar ritgerðir um forníslenska sögu


Af fornum lögum og sögum sem er safn ritgerða um íslenska miðaldasögu og hafa þær ekki birst áður á prenti. Í fyrri hluta bókarinnar er fjallað um elstu íslensku lögin, Grágás og Járnsíðu. Einkum er hugað að varðveislu Kristinréttar Grágásar, sem upphaflega er frá árunum 1122-1133. Þar ægir saman eldri og yngri innskotum sem reynt er að greina og tímasetja. Hið stóra lagahandrit Staðarhólsbók frá ofanverðri 13. öld, sem inniheldur bæði Grágás og Járnsíðu, er einnig skoðað sérstaklega. Í síðari hluta bókarinnar er fjallað um forna sagnaritun. Rannsóknin sýnir að íslenska sagnaritunin um kristnun Dana og fall Danavirkis virðist hafa þróast frá helgisögum um Ólaf konung Tryggvason seint á 12. öld til pólitískra háðs- og ádeiluskrifa í Jómsvíkinga sögu. Loks er texti Grænlendinga þáttar greindur, tímatal hans, laganotkun og mælskufræðilegur stíll.
Sveinbjörn Rafnsson er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Eftir hann liggja fjölmörg rit og má þar nefna Ólafs sögur Tryggvasonar (2005) og Sögugerð Landnámabókar (2001).
Ritstjóri er Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Ritsafn Sagnfræðistofnunar 42.

Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903

 Í bókinni fjallar Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur um mótun kyngervis kvenna á Íslandi á síðari hluta 19. aldar. Til grundvallar liggur umræða sem hófst í landsmálablöðunum árið 1870 um hvaða menntun hæfði konum og hinu svokallaða kvenlega eðli. Þótt umræðan hafi á yfirborðinu snúist um viðeigandi menntun kvenna þá snérist hún í raun um samfélagslegt hlutverk þeirra. Auk hinnar opinberu umræðu er byggt á upplifun kvenna eins og hún birtist í sendibréfum þar sem fram kemur togstreita milli ríkjandi hugmynda um hlutverk kvenna og löngunar þeirra til þess að stíga út fyrir ‘sitt gólf’.

Ein meginniðurstaða bókarinnar er sú að kvennaskólunum, sem stofnaður voru á áttunda áratug 19. aldar, hafi verið ætlað að endurskilgreina hlutverk kvenna í samfélaginu í anda ríkjandi hugmynda um konur sem mæður og húsmæður en ekki að opna þeim leið út í almannarýmið. Á þann hátt var brugðist við nútímavæðingu, kvenfrelsiskröfum og öðrum breytingum sem taldar voru ógna heimilinu sem hornsteini samfélagsins og kvenlegu eðli. Reyndin varð þó sú að kvennaskólarnir urðu hvort tveggja í senn vettvangur uppbrots og samsemdar, staðir þar sem kyngervi kvenna og sjálfsverund var endurskilgreind í takt við nýja tíma. Annars vegar til andófs við ríkjandi gildi og birtist í því sem kallað var ókvenlegt og er í rannsókinni skilgreint sem úrhraks-kvenleiki eða ómynd, en hins vegar í anda styðjandi kvenleika sem samþykkti og studdi forræði hins karllega. Þannig urðu kvennaskólarnir, umræðan um menntun og misvísandi orðræður um hlutverk og eðli kvenna hreyfiafl breytinga, bæði samfélagslegra og hugmyndafræðilegra um aldamótin 1900.
Bókin er doktorsverkefni Erlu Huldu Halldórsdóttur við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Hún er gefin út í samstarfi Sagnfræðistofnunar, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum og Háskólaútgáfunnar.

Þar sem fossarnir falla. Náttúrusýn og nýting fallvatna 1900-2008 eftir Unni Birnu Karlsdóttir

Bókin Þar sem fossarnir falla. Náttúrusýn og nýting fallvatna 1900-2008 eftir Unni Birnu Karlsdóttir er komin út.
Þjóðernissinnuð afstaða til náttúru Íslands sundrar íslensku þjóðinni í byrjun 21. aldar í stað þess að sameina hana. Rætur ágreinings um sambúð lands og þjóðar liggja auk þess í fleiri stefnum sem mótað hafa náttúrusýn Íslendinga síðustu hundrað árin, eins og rakið er í bókinni Þar sem fossarnir falla. Náttúrusýn og nýting fallvatna 1900-2008.

Bókin er byggð á ítarlegri rannsókn á umræðu um náttúru og vatnsorku á Íslandi og setur íslenska náttúrusýn jafnframt í samhengi við þær stefnur og strauma í vestrænni náttúrusýn sem skipta máli til að skilja þessa sögu. Tvær meginspurningar eru hafðar að leiðarljósi. Annars vegar spurningin um hvernig íslensk náttúrusýn þróaðist frá því um 1900-2008. Hins vegar spurningin um hvaða þættir búa í náttúrusýn Íslendinga sem leiða til þess að djúpstæður ágreiningur hefur verið um vatnsaflsvirkjanir á síðustu árum.
Bókin varpar ljósi á náttúrusýn Íslendinga, á 20. öld og fyrstu árum þeirrar 21., eins og hún birtist í umræðu um nýtingu vatnsaflsins. Grein er gerð fyrir hugmyndum um sambúð lands og þjóðar, og um náttúru- og umhverfisvernd. Fjallað er um umræðu um virkjanir allt frá því um 1900 fram til ársins 2008, og dregið fram hvaða sjónarmið stýra rökum manna með og á móti nýtingu fallvatna.  Fjallað er um viðhorf til fossanna og nýtingar þeirrar á fyrsta fjórðungi 20. aldar, fyrstu hugmyndir um verndun þeirra, sögu umræðu og viðhorfa til Gullfoss allt frá því um 1900 til fyrstu ára 21. aldar og hvern sess hann skipar nú í íslenskri náttúrusýn. Einnig eru dregin fram þau viðhorf til náttúrunnar sem fram komu í Laxárdeilunni í kringum 1970 og í deilunni um Þjórsárver, sem stóð í rúma þrjá áratugi. Síðasti hluti bókarinnar greinir þau viðhorf sem réðu ferðinni í deilunni um Fljótsdalsvirkjun í kringum aldamótin 2000 og síðan um Kárahnjúkavirkjun. Að lokum er þeirri spurningu varpað fram hvort einhver teikn hafi verið uppi, að lokinni hinni hörðu deilu um virkjanir á fyrstu árum þessarar aldar, um að hún hafi breytt einhverju í íslenskri náttúrusýn, þ.e. í afstöðu þjóðarinnar til  nýtingar og verndunar náttúru.
Í bókinni er íslensk náttúrusýn sett í alþjóðlegt samhengi með því að skoða hvernig erlendar hugmyndastefnur sem snerta sögu viðhorfa til náttúru og umhverfismála hafa haft áhrif á íslenska náttúrusýn síðastliðin 100 ár. Sérstakur gaumur er gefinn að því hvernig nýtingarstefna, rómantíska stefnan, þjóðernishyggja og tilteknir þættir í náttúruverndar- og umhverfisverndarhyggju komu við sögu og mótuðu náttúrusýn Íslendinga á rannsóknartímabilinu.

Bókina byggi ég á nálgun umhverfissögunnar, en þar eru maður og náttúra í brennidepli. Markmið bókarinnar er að draga fram í dagsljósið hvaða viðhorf til náttúrunnar kristallast í virkjanaumræðunni, þ.e. hvers konar mynd af íslenskri náttúrusýn birtist í deilum Íslendinga um virkjanir allt frá því um aldamótin 1900 og fram til þessa.
Trausti Jónsson ritstýrði bókinni og Hið íslenska bókmenntafélag gaf hana út vorið 2010 í ritröðinni Umhverfisrit Bókmenntafélagsins.

Sovét-Ísland Óskalandið – eftir Þór Whitehead

Út er komin frá bókafélaginu Uglu bókin Sovét-Ísland. Óskalandið eftir Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Kommúnistaflokkur Íslands var deild í heimsbyltingarsambandinu Komintern í Moskvu með það yfirlýsta markmið gera byltingu á Íslandi. Hér dregur Þór Whitehead sagnfræðingur í fyrsta sinn upp heildarmynd af byltingarundirbúningi íslenskra kommúnista 1921-1946 og viðbrögðum ríkisins. Byltingarbaráttan leiddi af sér öldu grófs ofbeldis, skólun tuga Íslendinga í neðanjarðarstarfsemi og hernaði í Sovétríkjunum, njósnir og launráð. Einstaklega lifandi saga um örlagatíma.

Kommúnistaflokkur Íslands var deild í heims-byltingarsambandinu Komintern, sem stjórnað var frá Moskvu. Yfirlýst markmið flokksins var: Bylting og stofnun Sovét-Íslands. Hér lýsir Þór Whitehead í fyrsta sinn í samfelldu máli undirbúningi flokksins að byltingu í landinu og viðbrögðum íslenska ríkisins. Byltingarbaráttan leiddi af sér öldu grófs ofbeldis, þar sem fjöldi manns slasaðist. Tugir valdra flokksmanna lærðu m.a. hernað og neðanj-arðarstarfsemi í byltingarskólum í Moskvu.Flokkurinn kom sér upp bardagaliði, sem sigraðist á lögreglunni í Gúttóslagnum.Geysimikil rannsókn liggur að baki bókinni. Hún bregður nýju ljósi yfir byltingarstarf kommúnista og mestu átakatíma í sögu Íslands. Þór Whitehead hefur aflað sér vinsælda lesenda með bókum sínum um síðari heimsstyrjöld. Þær hafa einnig  hlotið einróma lof fræðimanna fyrir vönduð vinnubrögð og geysiyfirgripsmiklar rannsóknir í mörgum löndum. Hér má sjá viðtal við Þór í þættinum Silfri Egils.
Þór Whitehead hefur aflað sér vinsælda meðal lesenda með styrjaldarbókum sínum. Verk hans hafa hlotið einróma lof fræðimanna fyrir vönduð vinnubrögð og yfirgripsmiklar rannsóknir. Þessi bók sver sig í ætt við fyrri bækur Þórs. Frásögnin er grípandi og örlög einstaklinga tvinnuð saman við meginþráðinn. Þór hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin 1995.

Expansions:Competition and Conquest in Europe since the Bronze Age

Reykjavíkur Akademían kynnir bókina Expansions: Competition and Conquest in
Europe since the Bronze Age eftir Axel Kristinsson.

Mörg samfélög manna hafa tekið upp á því að þenjast út með tilheyrandi
landvinningum og landnámi. Af hverju gera sum samfélög þetta en önnur ekki?
Hér er sett fram kenning sem getur skýrt mörg eða flest þessara tilvika svo
sem útþenslu Grikkja á 7. og 6. öld f. Kr., Rómverja, Germana, Víkinga og
Evrópu á 19. og 20. öld. Um leið er mótuð sagnfræðileg aðferð þar sem meiri
áhersla er lögð á að leiða í ljós almenn sannindi um þróun mannlegra
samfélaga fremur en að skýra einstök tilvik
Axel Kristinsson (f. 1959) er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur sem hefur
einkum rannsakað félagspólitíska sögu Íslands á miðöldum og árnýöld. Á
síðari árum hefur hann þó meira fengist við sína eigin útgáfu af
makró-sagnfræði þar sem nálgun þróunarfræði og flækjufræði er beitt til að
leiða í ljós almenn lögmál um þróun samfélaga. Axel býr í Reykjavík og
ræktar tré í tómstundum.
Bókin er á ensku.

Gunnar Thoroddsen – Ævisaga

Út er komin bókin Gunnar Thoroddsen – Ævisaga eftir Guðna Th. Jóhannesson. Bókin er í senn mögnuð og einlæg frásögn af lífshlaupi eins litríkasta og merkasta stjórnmálaforinga Íslands

Gunnar Thoroddsen setti sér ungur háleit markmið og náði þeim flestum. Hann varð vinsæll stjórnmálaleiðtogi en var jafnframt umdeildur, ekki síst innan Sjálfstæðisflokksins, enda laut hann illa ströngum flokksaga og fór eigin leiðir ef samviskan bauð.
Verkið er að miklu leyti byggt á opinskáum og einlægum einkaheimildum Gunnars, meðal annars dagbókum sem hann færði samviskusamlega frá ungum aldri til æviloka og trúði fyrir sínum innstu hugrenningum. Ævisagan birtir því áhrifamikla mynd af manninum og varpar um leið nýju ljósi á átök og atburði á sögulegum umbrotatímum.
Guðni Th. Jóhannesson er doktor í sagnfræði og hefur áður skrifað vinsælar bækur á sviði stjórnmálasögu, svo sem Hrunið – Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar (2009), Óvini ríkisins – Ógnir og innra öryggi í kalda stríðinu á Íslandi (2006) og Völundarhús valdsins – Stjórnarmyndanir, stjórnarslit og staða forseta Íslands í embættistíð Kristjáns Eldjárns, 1968-1980 (2005).
„Einstaklega vönduð og fróðleg ævisaga um litríkan leiðtoga og örlagaríka atburði.“
Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur
„Guðni segir sögu Gunnars listilega – með yfirvegun sagnfræðingsins og innsæi vaxandi rithöfundar.“
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrv. utanríkisráðherra
Höfundur: Guðni Th. Jóhannesson

Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar

Út er komin hjá hjá Forlaginu bókin Þóra biskups og raunir
íslenskrar embættismannastéttar eftir Sigrúnu Pálsdóttir.

Í 
bókarkynningu segir:
Ævi og örlög Þóru Pétursdóttur Péturssonar biskups yfir 
Íslandi og eiginkonu Þorvaldar Thoroddsen náttúrufræðings eru 
líklega mátulega stór fyrir samtíma okkar. Saga hennar segir frá 
kjólum og karlmönnum, draumum og glæstum vonum; grátbroslegum 
stundum í lífi lítillar þjóðar. Þetta er saga um tungumál og 
tjáningu, um þörf og hæfileika kvenna á síðari hluta nítjándu 
aldar til að búa til margradda frásögn um umhverfi sitt og þetta 
tímabil sögunnar sem þrátt fyrir allar ljósmyndirnar og textana 
er hljóðlaust og frosið.
Sigrún Pálsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1967. Hún hóf 
meistaranám í sagnfræði við University of Oxford árið 1993 og 
lauk þaðan doktorsprófi árið 2001. Að námi loknu gegndi hún 
rannsóknarstöðu Rannís við Hugvísindastofnun Háskóla Íslands 
og var stundakennari við sama skóla. Sigrún er ritstjóri Sögu, 
tímarits Sögufélags.

Mannlíf við Sund – býlið, byggðin og borgin – endurútgefin

Út er komin á ný bókin Mannlíf við Sund – býlið, byggðin og borgin, eftir Þorgrím
Gestsson. Hún kom upphaflega út árið 1998 en hefur nú verið ófáanleg í nokkur ár.

Í Mannlífi við Sund er sögð saga hinnar fornu Laugarnesjarðar frá landnámi til
ársins 1930 eða svo. Laugarnes var í upphafi næsta jörð fyrir austan hina fornu
Reykjavík, eða Vík, og náði þvert yfir Seltjarnarnes, milli Viðeyjarsunds og
Fossvogs. Öldum saman, í það minnsta frá 1200, var Laugarnes kirkjustaður og
höfuðból sveitarinnar fyrir austan Reykjavík, á innra Seltjarnarnesi, með Rauðará á
aðra hönd en Klepp og Bústaði á hina.
Í Laugarneslandi er Kirkjusandur þar sem starfræktar voru fiskverkunarstöðvar frá
því á sinni hluta 19. aldar og langt fram á þá 20. Steingrímur Jónsson
Skálholtsbiskup reisti biskupsbústað á Laugarnestanga á fyrri hluta 19. aldar en um
aldamótin 1900 byggðu danskir Oddfellowar holdveikraspítala þar í grenndinni,
stærsta timburhús sem reist hafði verið á Íslandi.
Bæjarstjórn Reykjavíkur keypti Laugarnesjörðina á seinni hluta 19. aldar og eftir
það var beitiland jarðarinnar notað fyrir fénað bæjarmanna og heitu laugarnar í
Laugamýri, sem hafa að líkindum verið tilefni nafngiftarinnar á fyrsta landnámsbýli
Íslands, Reykjavík, voru opnaðar almenningi, hvort tveggja til tauþvotta og baða.
Sundskóli hóf starfsemi sína í lóni norðan við Þvottalaugarnar vorið 1824 en á þeim
slóðum var síðar gerð torfsundlaug, sem varð undanfari sundlaugarinnar sem nefnd var
Laugarneslaugar, eða aðeins Sundlaugarnar, og þær laugar voru aftur fyrirrennari
Laugardalslaugarinnar.
Ólafur og Pétur Þorgrímssynir, synir síðustu bændanna í Laugarnesi, stofnuðu
Strætisvagna Reykjavíkur árið 1930, sem segja má að marki tímamót í þróun
Reykjavíkur frá smábæ til borgar, og með því lýkur jafnframt þessari bók. Ennfremur
er í ráði að höfundur hefjist með haustinu handa við að afla efnis í framhald
þessarar bókar þar sem fjallað verður um þróun byggðar í Laugarnesi frá 1930 til
okkar daga.