Munnlegar heimildir eru á víð og dreif í söfnum landsins, t.d. í byggðasöfnum og héraðsskjalasöfnum. Ríkisútvarpið hefur að geyma stærsta safn hljóðritana á Íslandi og nokkur söfn hafa sérstaklega lagt sig eftir munnlegum heimildum.
Miðstöð munnlegrar sögu
Miðstöðin er safn munnlegra heimilda um íslenska sögu og rannsókna- og fræðslusetur á sviði munnlegrar sögu. Hlutverk hennar er að safna munnlegum heimildum, varðveita þær og rannsaka. Hljóðrit sem búið er að yfirfæra á stafrænt form eru í opnum aðgangi á vefnum Hljóðsafn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafni, en annað efni er hægt að hlusta á í Miðstöðinni í Þjóðarbókhlöðu.
Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi
Í þjóðfræðisafni stofnunarinnar er hljóðritað efni sem safnað er úr munnlegri geymd. Starfræktur er gagnagrunnur á vegum Ísmús þar sem finna má flokkaða yfirlitsskrá um þjóðfræðiefni ásamt hljóðritum.
Þjóðminjasafn Íslands
Í þjóðháttasafni er talsvert magn munnlegra heimilda sem tengist þjóðháttum fyrr og nú.