„Rakið upp og stoppað í göt. Af lausnum íslenskra handritaskrifara, rímnaskálda og þýðenda við ýmsum vanda“.

Annað rannsóknarkvöld Félags íslenskra fræða á haustmisseri 2012 verður í ReykjavíkurAkademíunni, JL-húsinu Hringbraut 121, 4. hæð, miðvikudagskvöldið 17. október 2012 kl. 20. Þá mun Reynir Þór Eggertsson flytja fyrirlesturinn „Rakið upp og stoppað í göt. Af lausnum íslenskra handritaskrifara, rímnaskálda og þýðenda við ýmsum vanda“.
Þrátt fyrir Google Translate og aðrar nýjungar í þýðingartækni getur starf þýðandans enn verið ansi snúið. Þess má þó vænta að ákveðin vandamál sem þýðendur, líkt og handritaskrifarar, glímdu við á fyrri öldum hafi horfið að mestu með tilkomu tölvutækninnar. Ábyggilega er fátítt nú til dags að blaðsíður vanti í þann texta sem ætlast er til að þýddur sé, eins og gat gerst áður fyrr ef einungis eitt gallað/skemmt eintak var aðgengilegt. Í erindinu verður fjallað um hvernig íslenskir þýðendur danskra „almúgabóka“ tóku á slíkum vanda, sem og lausnum handritaskrifara og rímnaskálda á þeim vafa sem upp gat komið vegna prentvillna eða óþjálla nafna.
Reynir Þór Eggertsson lauk doktorsprófi í norrænum fræðum frá UCL 2009 og Cand.Mag.-prófi í dönsku frá Kaupmannahafnarháskóla 2005. Hann hefur rannsakað þróun og dreifingu þriggja danskra og íslenskra „almúgabóka“ á fyrri öldum, Gríshildar sögu góðu, Helenu sögu einhentu og Bertrams sögu greifa. Reynir var lektor við University College London veturinn 2010–11 og starfar nú sem dönsku- og íslenskukennari við Menntaskólann í Kópavogi.
Allir velkomnir.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *