Sagnfræði á 20. öld. Frá vísindalegri hlutlægni til póstmódernískrar gagnrýni

Í bókinni Sagnfræði á 20. öld fjallar víðkunnur þýsk-bandarískur sagnfræðingur, Georg G. Iggers, um hugmyndir, kenningar og aðferðir í sagnfræði allt frá því hún varð að fræðigrein í háskólum á 19. öld og fram til póstmódernismans á okkar dögum. Greint er frá helstu straumum innan sagnfræðinnar, m.a. Annálahreyfingunni, marxískri sagnaritun, nýju enningarsögunni, einsögunni og áhrifum póstmódernismans á hugmyndir sagnfræðinga.

Höfundur setur breytingar á sagnfræði í alþjóðlegt samhengi og ræðir m.a. hvernig lýðræðisþróun 20. aldar, fall sovéska heimsveldisins og hnattvæðingin hafa haft áhrif á sagnaritun. Í bókinni er ítarlegur eftirmáli, saminn sérstaklega fyrir íslensku útgáfuna, þar sem höfundur metur stöðu sagnfræðinnar í dag.
Sagnfræði á 20. öld er hnitmiðað yfirlit um söguskoðanir sagnfræðinga á 20. öld, hugmyndir þeirra um framvindu og eðli sögunnar og heimspekilegan grundvöll sögulegrar þekkingar.
Georg G. Iggers fæddist í Hamborg 1926 en flúði með foreldrum sínum til Bandaríkjanna tólf ára gamall. Hann hefur sinnt rannsóknum og kennt sagnfræði við ýmsa háskóla, lengst af við Ríkisháskóla New York í Buffalo. Eftir hann liggja m.a. bækurnar The German Conception of History (1968) og New Directions in European Historiography (1984). Hann ritaði ásamt konu sinni Wilmu sameiginlega ævisögu þeirra, Zwei Seiten einer Geschichte: Lebensbericht aus unruhigen Zeiten (2002). Auk þess hefur hann ritstýrt mörgum bókum og ritað fjölmargar greinar um þróun sagnfræðinnar og sagnaritunar í heiminum.
Sagnfræði á 20. öld er 37. bindi í Ritsafni Sagnfræðistofnunar og gefur Háskólaútgáfan bókina út. Þýðendur eru Eiríkur K. Björnsson, Ólafur Rastrick og Páll Björnsson. Ritstjóri ritraðarinnar er Guðmundur Jónsson.