Ritið 1/2008 – Saga og sjálfsmyndir

Út er komið nýtt tölublað Ritsins – Tímarits Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Þema heftisins er Saga og sjálfsmyndir. Í heftinu eru níu greinar sem fjalla hver með sínum hætti um spurningar er varða notkun sögunnar til að móta sjálfsmyndir þjóða, hópa og einstaklinga. Þar að auki er að vanda að finna í heftinu myndaþátt sem einnig hverfist um meginefni þess.

Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir ríður á vaðið með grein um stórfellda hagnýtingu klisjunnar í framsetningu íslenskrar sögu með ríkisstyrktum sýningum víða um land. Gagnrýni Önnu beinist að því að yfirvöld séu í raun að breyta sögunni og sjálfsmyndinni í það sem kallað er á erlendum málum kitsch og á fremur heima í minjagripasjoppum en á sýningum sem styrktar eru af almannafé í nafni menningartengdrar ferðaþjónustu.
Sigríður Matthíasdóttir skoðar hvernig hugmyndir manna um „kvenleika“ og „eðli“ kvenna breyttust undir lok 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. og greinir hvernig kenningar um frelsi kvenna sem einstaklinga rákust á hversdagslegan veruleika karlmanna þannig að sumir þeirra sem áður studdu aukin mannréttindi kvenna sviku þann málstað þegar til átti að taka. Svanur Kristjánsson rekur þessa sögu andspænis hinum pólitíska bakgrunni og tengir sinnaskipti karlanna við óttann um að missa völdin.
Sverrir Jakobsson tekst á við þá spurningu hvort og hvernig sagnfræði sé mörkuð af fyrirframgefnu fræðilegu viðhorfi eða „kenningum“ og dregur m.a. fram athyglisverðar hliðstæður milli aðferðafræði sagnfræðinga og raunvísindamanna. Guðmundur Jónsson skoðar einnig átökin milli hinnar hefðbundnu, (raun)vísindalegu nálgunar sagnfræðinnar og þeirra kenninga, gamalla og nýrra, sem dregið hafa þessa aðferðafræði í efa. Róbert H. Haraldsson fer síðan vendilega yfir sannleikshugtakið í sagnfræði frá heimspekilegu sjónarhorni.
Einnig er í heftinu tvær merkar greinar eftir þau Joan Scott og Joep Leerssen í íslenskri þýðingu Maríu Bjarkadóttur. Greinar þessar taka einmitt á þeim nýju sjónarhornum sem komið hafa fram í sagnfræði og þjóðernisrannsóknum á síðari árum og snerta þannig mörg viðfangsefni annarra greinarhöfunda í þessu hefti Ritsins.
Myndaþáttur heftisins hefur að geyma myndir eftir Helga Arason (1893-1972). Myndirnar bregða ljósi á líf fjölskyldu í Öræfasveit á fjórða áratug síðustu aldar, eins og fræðast má um í aðfararorðum Sigrúnar Sigurðardóttur að myndaþættinum.
Ritið 1/2008 er 215 bls.
Útgefandi er Hugvísindastofnun Háskóla Íslands. Ritið kemur út þrisvar sinnum á ári. Þeir sem vilja gerast áskrifendur eru beðnir að snúa sér til Margrétar Guðmundsdóttur, verkefnisstjóra Hugvísindastofnunar (mgu@hi.is). Háskólaútgáfan annast dreifingu í verslanir. Ársáskrift kostar kr. 5.900.
Leiðbeinandi útsöluverð einstakra hefta er 2.900 kr.