Nútímaheimilið í mótun – fagurbætur, funksjónalismi og norræn áhrif á íslenska hönnun 1900-1970

Nútímaheimilið í mótun – fagurbætur, funksjónalismi og norræn áhrif á íslenska hönnun 1900-1970


Í ritinu er fjallað um þær breytingar sem urðu á híbýlaháttum Íslendinga þegar hin fjölþjóðlega nútímahreyfing í byggingarlist og hönnun breiddist út á tímabilinu 1900–1970 og tengsl þeirra við norrænan listiðnað og hönnun. Efnið er skoðað frá sjónarhóli módernismans og efnismenningar hvað varðar húsgagnaframleiðslu, neysluhætti og hlutverk sýninga. Hugmyndir um fagurbætur birtust m.a. í heimilissýningum, umræðu um bygginga- og heimilisiðnaðarmál og með innreið vinnuvísinda á heimilum. Greint er hvernig módernismi eða norrænn funksjónalismi mótaði nýja fagurfræðilega sýn á húsakost og híbýlaprýði og átök hefða og nútíma, hins þjóðlega og innflutta, sveita og kaupstaða, eru skýrð með vísun í „útskurðartímabilið“, tilurð stássstofunnar og samkeppni um þjóðleg húsgögn. Sjónum er síðan beint að húsgögnum sem „hlutum“ í nútímavæðingu heimila í kaupstað og sveit. Gerð er grein fyrir forsendum og sögulegum rótum „Scandinavian design“-hreyfingarinnar, norrænni samvinnu um listiðnaðarmál og mikilvægi byggingamála- og heimilissýninga eftir 1945. Tengsl Íslendinga við „Scandinavian design“-hreyfinguna á alþjóðavettvangi upp úr miðjum sjötta áratugnum eru skýrð með þátttöku þeirra í sýningum, hlutverki þeirra sem mótuðu smekk á íslenskum heimilum 1950–1970 og hvernig hönnunarmálum í húsgagnaiðnaði var háttað. Að lokum er sýnt fram á breytingarnar í húsgagnaframleiðslunni með dæmum af sýningum og nokkrum verkstæðum í Reykjavík og á Akureyri þar sem hönnun, ný tækni og efni komu á einhvern hátt að framleiðslunni.
Í rannsókninni er komist að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hafi fylgt hugmyndum nágrannaþjóðanna um fagurbætur og síðar funksjónalisma í húsagerð og híbýlaháttum enda voru þjóðernisleg viðhorf til fagurfræði á heimilum áberandi og tengsl við norrænan heimilis- og listiðnað sterk. Íslendingum tókst hins vegar ekki að tengjast hönnunarhreyfingunni „Scandinavian design“ sem skyldi og skipuðu sér sess á jaðri norrænnar hönnunar á áratugunum eftir stríð. Umbætur í híbýlaháttum voru öðrum þræði fagurfræðilegar og fylgdu erlendum fyrirmyndum í listiðnaði og húsgagnagerð þar sem norræn áhrif vógu þungt. Húsgagnagerð dafnaði helst á tímum hafta og lengst af var handiðnaður mikilvægara afl en hönnun/fjöldaframleiðsla sem skorti tilhlýðilegt félags- og menningarlegt bakland og skilning á samspili listar og iðnaðar. Þátttaka í sýningum á alþjóðavettvangi hófst að ráði með „Scandinavian design“-hreyfingunni. Nýnæmið heima fyrir fólst í mótun smekks í anda norræns funksjónalisma og „Scandinavian design“ frekar en nýsköpun í listiðnaði og hönnun.