Um góðæri og kreppu hjá Völsungum og Gjúkungum

Rannsóknarkvöld Félags íslenskra fræða verður haldið í húsi Sögufélags við Fischersund, fimmtudaginn 19. mars kl. 20. Að þessu sinni flytur Aðalheiður Guðmundsdóttir erindið Um góðæri og kreppu hjá Völsungum og Gjúkungum.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um efni Völsunga sögu sem hefur verið vinsælust af Fornaldarsögum Norðurlanda. Efnið teygir anga sína um alla Evrópu og sagt verður frá hvernig það gæti hafa þróast og ummyndast frá sögulegum kjarna, og hvernig óskyldir atburðir, og jafnvel alls óskyldar sögulegar persónur, urðu með tímanum nátengdar sem þátttakendur í sömu atburðarás.

Völsunga saga, sem talin er rituð um miðja 13. öld, byggir á hetjukvæðum Eddu, þeim kvæðum sem nú eru varðveitt í handritinu Codex Regius eða Konungsbók frá ca. 1270. Sagan er án efa ein sú vinsælasta af Fornaldarsögum Norðurlanda, enda áhugaverð fyrir margra hluta sakir. Söguefnið, sem má heita sam-germanskt, teygir anga sína víða, jafnt um Norðurlönd sem önnur Evrópulönd.
 
Í þessum fyrirlestri verður Völsunga saga skoðuð í ljósi sögurita eftir Jordanes, Gregorius frá Tours, Fredegar og fleiri forna sagnaritara, og ljósi varpað á fyrirmyndir söguhetja og atburða. Sérstök áhersla verður lögð á að skoða þrjá þætti sem gera má ráð fyrir að liggi að baki sögunni, eða arfsögnina um fall Búrgundaríkis (5. öld) og vitnisburð sagnaritara um Attila Húnakonung (5. öld) og Meróvinga, konunga Frankaríkis (6.  öld).
 
Hjá leiðtogum þjóðanna þriggja, Búrgunda, Franka og Húna, gekk á ýmsu og allir stuðluðu þeir að velferðartímabili þjóða sinna; gæfan varð þeim hins vegar fallvölt, og leitin eftir sífellt meiri yfirráðum, völdum og auði leiddi að lokum til þess að allir voru þeir myrtir eða dóu í það minnsta heldur „óvirðulegum“ dauðdaga; hetjunum miklu var m.ö.o. neitað um hetjulegan dauðdaga. Örlög þeirra urðu engu að síður uppspretta sagna og kvæða sem lifðu í munnlegri geymd svo öldum skipti, allt þar til kvæðin voru skráð og að lokum notuð sem uppistaða Völsunga sögu. Í fyrirlestrinum verður leitast verður við að sýna með hvaða hætti efnið gæti hafa þróast og ummyndast, allt frá sögulegum kjarna, og hvernig óskyldir atburðir, og jafnvel alls óskyldar sögulegar persónur, urðu með tímanum nátengdar sem þátttakendur í sömu atburðarás.