Sjóræningjar í Norðurhöfum: Ólafur Egilsson og Tyrkjaránið í sögulegu samhengi – Alþjóðleg ráðstefna í Vestmannaeyjum helgina 17.-19. október

Árið 1627 lagði séra Ólafur Egilsson upp í langferð frá Alsír til Íslands. Hann var sendur af stað, peningalaus og allslaus, til að heimta lausnargjald fyrir samlanda sína sem rænt hafði verið í Tyrkjaráninu á Íslandi sex mánuðum fyrr. Ferðalag hans norður alla Evrópu tók níu mánuði og lá leið hans m.a. um Ítalíu, Frakkland, Holland og Danmörku. Á þessari ferð treysti hann því statt og stöðugt að Drottinn myndi leiða hann í gegnum þrautirnar. Eftir að heim kom ritaði hann reisubók, sem fram til þessa hefur aðeins verið til á íslensku.
Tyrkjaránið 1627 er almennt talið einn af skelfilegri atburðum Íslandssögunnar. Herjað var á Austfirðina, Suðurnesin og Vestmannaeyjar og talið er að hátt í fjögur hundruð Íslendingum hafi verið rænt í ránsferð alsískra sjóræningja. Siglt var með þá suður Atlantshafið uns komið var í höfn í Algeirsborg þar sem fólkið var selt á þrælamarkaði.
Í tilefni af útkomu enskrar þýðingar á Reisubók séra Ólafs Egilssonar heldur Sögusetur 1627 alþjóðlega ráðstefnu þar sem munu koma saman íslenskir og alþjóðlegir fræðimenn til að fjalla um Tyrkjaránið og skoða það í sögulegu samhengi á alþjóðavísu.

Gestir ráðstefnunnar verða m.a. alsírski rithöfundurinn og fræðimaðurinn Mohamed Magani og Robert C. Davis frá Ohio háskóla sem fjalla um Tyrkjaránið út frá fólksflutningum og hnattvæðingu. Norski fræðimaðurinn Torbjorn Odegaard flytur fyrirlestur um Norður-Afríku séða með augum tveggja skandinavískra þræla. Karl Smári Hreinsson og Adam Nichols ræða um reisu séra Ólafs Egilssonar og Þorsteinn Helgason, sagnfræðingur ásamt Steinunni Jóhannesdóttur, rithöfundi,  fjalla um ránin út frá reynslu Íslendinga.
Ráðstefnan er haldin í Alþýðuhúsinu í Vestmannaeyjum.
Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og aðgangur ókeypis. Upplýsingar um dagskrá og fyrirlesara og skráningu er að finna á www.1627.is