Rögnvaldur Ingþórsson: Er tímahugtakið mótsagnakennt? Ný túlkun á röksemdafærslu McTaggarts

Fyrirlestur á vegum Heimspekistofnunar föstudaginn 28. mars, kl. 12 í stofu 313 í Aðalbyggingu Háskólans
Fyrir réttri öld færði enski heimspekingurinn McTaggart, einn síðasti fulltrúi breskrar hughyggju, rök fyrir því að tíminn væri ekki raunverulegur. Rökin hafa reynst umdeild. Í þessum fyrirlestri er gerð grein fyrir nýrri túlkun á þeim.

Segja má að tímaheimspeki tuttugustu aldar hafi að mestu leyti snúist um röksemdafærslu J.M.E. McTaggarts sem fyrst birtust í The Mind árið 1908. Í grófum dráttum er röksemdafærslan þessi. Hægt er að hugsa sér tímann annað hvort sem runu atburða sem eru á undan og á eftir hvor öðrum (B-runan), eða sem runu atburða sem eru annaðhvort framtíð, nútíð eða fortíð (A-runan). Vandamálið með B-rununa, segir McTaggart, er að hún inniheldur engar breytingar, en það liggur í eðli tímans að innihalda breytingar. Ef atburður er á annað borð á undan sumum aðburðum og á eftir öðrum, þá er hann það alltaf. A-runan virðist við fyrstu sýn innihalda breytingar. Allir atburðir eru fyrst framtíð, svo nútíð og að lokum fortíð.
Vandamálið, segir McTaggart, er að A-runan er mótsagnakennd. Mótsögnin—án þess að afhjúpa of mikið fyrirfram—er að atburðirnir í A-rununni hafa ósamræmanlega eiginleika. Endanleg niðurstaða er sú að raunveruleikinn inniheldur enga breytingu, og þess vegna er enginn tími til. Varla nokkur maður er sammála niðurstöðu McTaggarts en heimsspekingar skiptast alveg í tvo hópa í afstöðu sinni til röksemdarfærslunnar. Annað hvort neita þeir að B-runan sé breytingalaus, en játa því að A-runan sé mótsagnakennd, eða neita því að A-runan sé mótsagnakennd en játa því að B-runan sé snauð öllum breytingum. Það sem hefur þó vakið mestum deilum er eðli mótsagnar A-rununnar. Sumum finns mótsögnin augljós, en eiga mjög erfitt með að sannfæra aðra um það. Aðrir geta ekki skilið hvernig í ósköpunum A-runan eigi að innihalda mótsögn. Judith Jarvis Thomson hefur líkt röksemdafærslunni við Rorschach-blett: „Some have seen a frog in it. Others a prince. Still others a clash of armies by night.“
Í fyrirlestrinum verða færð rök fyrir því að rökin hafi virst vera óljós einfaldlega vegna þess að þeim hefur alltaf verið tekið einsog sjálfstæðu verki sem ekkert koma allmennri frumspeki McTaggarts við. Ef frumspekin er höfð til viðmiðunnar þá er túlkunin nokkuð ljós. Útskýrt verður hvernig niðurstaða McTaggarts er bein afleiðing af nokkrum frumspekilegum grundvallarsetningum, og að af þeim sökum séu rökin gegn því sem nú kallast A-kenningin um tímann ógild.
Rögnvaldur Ingþórsson lauk doktorsnámi í heimspeki árið 2002 frá Umeå-háskóla. Hann hefur birt greinar um tímann, orsakalögmálið, varandleika og sannleika. Hann hefur kennt heimspeki við Umeå-háskóla og var nýverið Visiting Research Fellow við Durham-háskóla.