Rannsóknarkvöld Félags íslenskra fræða

Þriðja og síðasta rannsóknarkvöld Félags íslenskra fræða á þessu haustmisseri verður haldið næstkomandi fimmtudag, 26. nóvember, kl. 20 í húsi Sögufélagsins, Fischersundi 3. Þar flytur Guðrún Ása Grímsdóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, fyrirlestur sem hún nefnir Yppurstu persónur landsins: um ættartölurit frá 17. öld.
Léttar jólaveitingar í boði að loknum fyrirlestri.
Allir eru velkomnir.

Höfundur lýsir erindi sínu á þessa leið:
„Áttvísi eða mannfræði hefir verið stunduð frá ómunatíð í flestum menningarsamfélögum og er elsta form sagnfræðiiðkana meðal þjóða. Í fornnorrænum samfélögum gegndi ættfræði ákveðnu hlutverki þar sem skylda hvers bjargálna manns var að framfæra ósjálfbjarga nákomna ættingja sína og hefna fyrir þá ef þeir urðu vopndauðir. Eftir því sem samfélög þróuðust og ákveðnar ættir efldust að völdum og eignum varð þeim meiri nauðsyn á að þekkja ætt sína með það að markmiði að halda eignum og völdum innan ættar. Ættfræðiáhugi jókst mjög í Norðurálfu á 15. og 16. öld og varð Þýskaland hið eiginlega heimaland ættfræðirannsókna. Rit um konunga- og aðalsættir voru prentuð þar og í nágrannalöndunum. Meðal íslenskra menntamanna 17. aldar óx mjög áhugi á uppskriftum fornrita og jafnframt var skrifaður fróðleikur um ættir og niðja helstu embættis- og eignamanna landsins. Fjöldi slíkra ættartölurita er til í íslenskum handritum og er eitt hið veigamesta Ættartölusafnrit séra Þórðar Jónssonar í Hítardal. Það kom út á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum um veturnætur 2008. Efni safnritsins hverfist um kynkvíslir jarðeigandi embættismanna og ríkisbænda landsins á 17. öld og með fylgja smásögur sem bregða lífi og lit yfir land og fólk á liðnum öldum. Í erindinu verður fjallað um þetta rit, tilurð þess, inntak og varðveislu.“