Óvænt áfall eða fyrirsjáanleg tímamót? Brottför Bandaríkjahers frá Íslandi: Aðdragandi og viðbrögð

Þriðjudaginn 30. september heldur Gunnar Þór Bjarnason fyrirlestur um bók sína Óvænt áfall eða fyrirsjáanleg tímamót? Brottför Bandaríkjahers frá Íslandi: Aðdragandi og viðbrögð, sem kom út fyrr í mánuðinum á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Háskólaútgáfunnar. Að loknu erindi Gunnars tekur Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, við og heldur erindi um bókina og umfjöllunarefni hennar. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, stýrir fundinum.
Fyrirlesturinn er á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og verður haldinn þriðjudaginn 30. september milli kl. 17 og 18 í stofu 132 í Öskju.
Fyrirlesturinn er opinn öllum og er aðgangur ókeypis.

Bókin fjallar um málefni sem hefur verið mikið á döfinni síðustu misserin, þ.e. samskiptin við Bandaríkin í öryggis- og varnarmálum. Hvers vegna ákvað Bandaríkjastjórn að kalla heim varnarliðið á Keflavíkurvelli? Væri kannski nær að spyrja af hverju herinn var ekki löngu farinn? Hvers vegna voru íslenskir ráðamenn mjög ósáttir við ákvörðun Bandaríkjastjórnar? Voru Íslendingar illa búnir undir brottför hersins? Höfðu íslensk stjórnvöld sofið á verðinum og ekki tekið mark á vísbendingum um að brotthvarf varnarliðsins væri yfirvofandi? Hvernig hefur Íslendingum gengið að bregðast við brottför hersins? Eru varnir Íslands nægilega vel tryggðar? Getur Landhelgisgæslan sinnt þeim verkefnum sem þyrlur Bandaríkjahers gerðu? Hvers vegna ákváðu stjórnvöld að koma á fót Varnarmálastofnun? Ættu Íslendingar að semja um öryggi og varnir við Evrópusambandið? Hverjir eru hinir nýju hornsteinar íslenskra öryggis- og varnarmála?
Höfundurinn Gunnar Þór Bjarnason er BA í sagnfræði og þýsku frá Háskóla Íslands. Hann stundaði framhaldsnám í Þýskalandi og hefur lokið MA-prófi í alþjóðasamskiptum frá HÍ. Gunnar hefur kennt við framhaldsskólann í Breiðholti um árabil, og var stundakennari við HÍ í áratug. Hann hefur skrifað greinar um sagnfræði í blöð og tímarit og er höfundur kennslubókar um sögu 20. aldar.
Sjá einnig á http://www.hi.is/ams
ATH. Bóksala stúdenta gefur 20% afslátt af bókinni þriðjudaginn 30. september og miðvikudaginn 1. október.