„Ókunnugir ferðalangar biðja ávallt um leiðsögumann“ Pílagrímsferðir um Sögustaði og myndir úr ferðalögum

Þriðjudaginn 16. nóvember kl. 12:05 mun Einar Falur Ingólfsson flytja
erindið “Ókunnugir ferðalangar biðja ávallt um leiðsögumann” –
Pílagrímsferðir um sögustaði og myndir úr ferðalögum. Aðgangur er ókeypis
og allir velkomnir.

Í erindi sínu mun Einar Falur fjalla um pílagrímsferðir sem listaverk
kveikja, út frá túlkun þeirra Williams Gershoms Collingwoods á stöðum sem
koma fyrir í Íslendingasögunum. Á sýningunni Sögustaðir – í fótspor W.G.
Collingwoods sem nú er í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands, og í samnefndri
bók, birtast myndir þeirra tveggja af stöðum sem oft láta lítið yfir sér
en eru hlaðnir sögulegri merkingu.
Á sýningunni má sjá úrval ljósmynda Einars Fals og að auki hluta þeirra
rúmlega 300 verka sem Collingwood málaði hér á landi, en ríflega helmingur
myndanna frá ferð hans eru varðveittar í Þjóðminjasafninu.
W.G. Collingwood kom til landsins til að mála myndir af stöðum sem koma
fyrir í Íslendingasögunum og um leið skapaði hann merkar heimildir um
íslenskan samtíma. Síðustu þrjú ár hefur Einar Falur notið leiðsagnar
Collingwoods á ferð sinni milli íslenskra sögustaða. Hann hefur farið
milli staða þar sem breski listamaðurinn vann og stuðst við myndverk hans
og skrif. Í ljósmyndum Einars Fals verður til samtal þriggja tíma; samtíma
áhorfandans í dag, samtíma Collingwoods árið 1897 og sögualdarinnar, sem
Bretinn hyllti í myndverkum sínum.
Í samnefndri bók, sem Þjóðminjasafn Íslands og Crymogea gefa út, birtast
enn fleiri myndir úr verkefninu, auk ítarlegs texta ljósmyndarans um
verkefnið, ljósmyndun, málaralist, ferðalagið og tímann.