Níunda þing norrænna kvenna- og kynjasögufræðinga 11.-13. ágúst 2008

Fræðimenn og aðrir áhugasamir eru minntir á níunda þing norrænna kvenna- og kynjasögufræðinga sem haldið verður við Háskóla Íslands dagana 11.-13. ágúst 2008.
Á þinginu taka þátt margir fremstu sagnfræðingar Norðurlandanna og ættu íslenskri sagnfræðingar, og aðrir áhugasamir um sögu kvenna og kynja, og sagnfræði yfirhöfuð, að láta fram hjá sér fara tækifæri til þess að drekka í sig það sem efst er á baugi á þessu sviði. Í málstofum verður meðal annars rætt um kvennahreyfingar fyrr og nú, bæði á alþjóðlegum vettvangi og ‘heima fyrir’, sjálfsævisögulegar heimildir í sagnfræðirannsóknum, miðaldasögu, kyngervi og vinnu, kyngervi í evrópskum borgum 1600-1800, rými, mörk og líkama …
Pallborðin tvö snúast annars vegar um stöðu kvenna- og kynjasögu innan ‘hefðbundinnar’ sagnfræði, þar sem m.a. verður spurt að því hvers vegna kvennasaga og kynjasaga séu enn álitnar sérfag, jafnvel jaðarfag, í stað þess að vera eðlilegur hluti almennra sagnfræðirannsókna. Hitt pallborðið tekur á kvennahreyfingum á alþjóðlegum vettvangi.
Skráningarfrestur til 1. júní! Eftir það hækkar gjaldið.

Yfirskrift þingsins er Kyngervi, rými og mörk, sem tekur til þriggja mikilvægra hugtaka fræðasviðsins. Í fyrsta lagi kyngervishugtakið (gender) sem hefur verið eitt helsta greiningarhugtak kvennasögu- og kynjasögurannsókna í rúmlega tvo áratugi. Í öðru lagi rými og mörk (space, borders), sem oftar en ekki eru notuð saman. Fræðimenn hafa í vaxandi mæli beint sjónum að þeim rýmum sem konum hafa verið ætluð og spurt um sveigjanleika þeirra, og hvernig þau hafa breyst í tímans rás. Sjónum er því beint að rými og mörkum í tengslum við m.a. hugmyndina um aðskilin svið, stjórnmálaþátttöku, landafræði, kynhneigð o.s.frv.
Á ráðstefnunni verða þrír lykifyrirlesarar, pallborðsumræður, málstofur og hringborðsumræður tengdar yfirskrift þingsins. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu ráðstefnunnar, en þessa dagana er verið að setja inn endanlegar lýsingar á fyrirlestrum, pallborðum o.s.frv.: www.qhist08.is
Ida Blom, prófessor  emerita við Háskólann í Bergen, flytur opnunarfyrirlestur þingins. Fyrirlesturinn er  Jóns Sigurðssonar fyrirlestur þessa árs og í boði Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands. Það þýðir að þessi viðburður er öllum opinn. Ida Blom er meðal þekktustu sagnfræðinga Norðurlanda og hefur hún skrifað fjölda greina og bóka, bæði um norska sögu en einnig í alþjóðlegu samhengi. Blom var nýlega kjörin heiðusfélagi í samtökum bandarískra sagnfræðinga, sjá t.d. viðtal Alice Kessler-Harris við Idu Blom: http://www.historians.org/Perspectives/issues/2006/0612/0612int1.cfm
Aðrir lykilfyrirlesarar eru:
Judith M. Bennett, prófessor í sagnfræði við University of Southern California, en hún hefur um árabil verið í fremstu röð vestrænna kvennasögu og kynjasögufræðinga. Bennett er miðaldafræðingur en nýjasta bók hennar heitir History Matters. Patriarchy and the Challenge of Feminism (2006), sjá http://www.upenn.edu/pennpress/book/1801.html
Bennett mun tala út frá þeirri bók í fyrirlestri sínum. Um Bennett sjá: http://college.usc.edu/faculty/faculty1008252.html

Ellen Dubois, prófessor í sagnfræði við University of California (UCLA). DuBois, hefur líkt og Ida Blom og Judith M. Bennett lagt stund á kvennasögu og kynjasögurannsóknir frá því á áttunda áratugi síðustu aldar og fylgt þeim breytingum sem orðið hafa í rannsóknaráherslum á fræðasviðinu. DuBois hefur einkum unnið að rannsóknum á fyrstu bylgju kvennahreyfinga og eftir hana liggja fjölmargar bækur og greinar á því sviði. Um DuBois sjá nánar: http://www.history.ucla.edu/people/faculty?lid=822
Skráningarfrestur á ráðstefnuna er til 1. júní næstkomandi, eftir það hækkar gjaldið, sjá: www.qhist08.is
Ráðstefnugjaldið er kr. 20.000 fyrir almenna þátttakendur en fyrir stúdenta er gjaldið kr. 12.000. Innifalið er hádegismatur alla þrjá dagana, kaffiveitingar og hátíðarkvöldverður 13. ágúst.
Við vonum að sem flestir íslenskir fræðimenn og aðrir áhugasamir taki þátt í þinginu.
Ef ekki finnast svör við spurningum ykkar á vefsíðunni ráðstefnunnar, vinsamlega hafið þá samband við Auði Styrkársdóttur hjá Kvenansögusafni Íslands, audurs@bok.hi.is