Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar

Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar árið 2009 verður mánudaginn 30. mars í stofu 101 í Lögbergi kl. 17.
Fyrirlesturinn flytur tékkneski sagnfræðingurinn Miroslav Hroch, prófessor emeritus við Karlsháskólann í Prag. Hroch er einn fremsti sérfræðingur Evrópu í sögu þjóðernishreyfinga og hefur skrifað fjölda bóka og greina um mótun þjóðernisvitundar og menningarlegrar þjóðernisstefnu í smærri ríkjum Evrópu.
Titill fyrirlestrar Hrochs er ‘Why Did They Win?’ Þar mun hann fjalla um það hvernig þjóðernishópar í Evrópu kröfðust viðurkenningar sem fullmótaðar þjóðir, en flest þjóðríki Evrópu eru byggð á slíkum kröfum.
Hann mun beina sjónum að þremur þáttum í þessum ferli. Í fyrsta lagi leggur hann mat á það við hvaða aðstæður forvígismenn slíkra hreyfinga – menn á borð við Jón Sigurðsson – ákváðu að hefja baráttu fyrir þjóðréttindum. Í öðru lagi mun hann velta fyrir sér hvers vegna þessi barátta náði markmiðum sínum. Að síðustu mun hann greina hvernig þjóðerni mótar enn pólitíska vitund og samfélagsgerð í smærri ríkjum Evrópu sem urðu til á grundvelli slíkrar þjóðernisbaráttu.

Hroch vakti fyrst athygli vestan járntjalds með útkomu bókarinnar Die Vorkämpfer der nationalen Bewegungen bei den kleinen Völkern Europas, sem kom út í Prag árið 1968, en var gefin út í enskri þýðingu af Cambridge University Press árið 1985, Social Preconditions of National Revival in Europe (önnur útgáfa frá Columbia University Press árið 2000). Í bókinni setti Hroch fram nýstárlegar kenningar um mynstur í þróun evrópskra þjóðernishreyfinga og tekur sérstaklega fyrir áhrif og forystu menntamanna.
 
Þriðjudaginn 31. mars kl. 15 hefst semínar Hrochs í stofu 423 í Árnagarði undir yfirskriftinni ‘Trying to find a consensual explanation of nation formation?’ Þar ræðir hann efni nýjustu bókar sinnar, Das Europa der Nationen. Die moderne Nationsbildung im europäischen Vergleich, sem kom út hjá Vandenhoeck & Ruprecht árið 2005. Á eftir verða léttar veitingar.