Landnám Íslands: Leitin að sannleikanum

ReykjavíkurAkademían efnir til síðdegisumræðu í dag, fimmtudaginn 26. nóvember 2009 kl. 16-18.
Lengi hefur staðið styrr um kenningar sem verulega hafa hróflað við viðteknum hugmyndum um upphaf landnáms á Íslandi. Þessar kenningar hafa verið settar fram á grunni aldursgreiningar á kolefni, svokallaðrar C14 aðferðar. Nýlega birtist grein í Skírni eftir Pál Theódórsson eðlisfræðing þar sem hann heldur þessum hugmyndum á lofti og vakti hún nokkra athygli fjölmiðla og andmæli fræðimanna.
Kenningar um landnám Íslands, upphaf þess og framvindu byggjast á samleik margra fræðigreina. Enn virðist þó ekki vera almenn samstaða um hvernig nota beri C14 aðferðina í þessu samhengi.
Því blæs ReykjavíkurAkademían til umræðufundar um efnið í von um að bregða megi ljósi á vandann og leita leiða til að stilla saman krafta ólíkra fræðigreina.

Dagskrá:
Páll Theódórsson eðlisfræðingur heldur erindi um kenningar sínar.
Eftirtaldir bregðast stuttlega við erindi hans:
Árný Sveinbjörnsdóttir jarðfræðingur
Kristján Mímisson fornleifafræðingur
Viðar Pálsson sagnfræðingur
Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur og vísindasagnfræðingur.
Eftir kaffihlé sitja frummælendur í pallborði og er vonast eftir líflegum og málefnalegum umæðum með þátttöku gesta.