Klausturgarðar og kostur Skálholts, laugardaginn 28. júní kl 14:00

Félagið Matur-Saga-Menning gengst fyrir kynningu á matarháttum og garðrækt á hinum forna Skálholtsstað. Mjöll Snæsdóttir fornleifafræðingur og Ingólfur Guðnason garðyrkjufræðingur halda stutt erindi. Einnig verður farið í stutta staðarskoðun undir leiðsögn heimamanna og bragðað á krásum úr eldhúsi Skálholtsskóla.

Mjöll Snæsdóttir fornleifafræðingur flytur erindi um kost Skálholts. Hún hefur stýrt forleifauppgreftri á staðnum undanfarin ár og byggir hún erindið að miklu leyti á þeim rannsóknum. Ingólfur Guðnason garðyrkjufræðingur fjallar um ræktun í klaustrum miðaldanna og hugsanleg áhrif hennar utan klaustra. Ingólfur hefur kynnt sér margvíslegar heimildir um ræktun til forna á Skálholti og eins hefur hann gert jurtagarð við Skálholt.  Þar má sjá sýnishorn nytjajurta sem kunnar voru í Skálholti á fyrri öldum. Væntanlega verður garðurinn í fullum skrúða.
Skálholtsskóli leggur áherslu á sögutengda ferðaþjónustu og frá árinu 1997 hefur verið boðið þar upp á veitingar sem tengjast sögu staðarins. Í þetta sinn verður reitt fram “Kaffihlaðborð Valgerðar biskupsfrúar”.  Þar verður í boði ýmislegt góðgæti sem hefur verið á borðum heldra fólks um 1800.
Að félaginu Matur- Saga- Menning stendur fagfólk og annað áhugafólk um mat, þjóðleg fræði og sögu sem auka vill veg þjóðlegra matarhefða á Íslandi og
kynna og auka þekkingu á íslenskum mat og matarmenningu. Skálholt er um 90 km frá Reykjavík í hjarta uppsveita Árnessýslu.
Allir eru velkomnir, aðgangseyrir er kr. 1000.- og eru kaffiveitingar innifaldar í verðinu.
Nánari upplýsingar veita:
Ingólfur Guðnason engi@engi.is, sími 486 8913
Sólveig Ólafsdóttir solveig@simnet.is, sími 892 1215