Hvað er að óttast? – Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélags Íslands, haustmisseri 2008

Nú haustar og því hefjast hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins á ný. Í þetta sinn munu fyrirlesarar reyna að svara spurningunum “Hvað er að óttast?” og “Hvað er andóf?”.
Haustið er helgað óttanum. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra ríður á vaðið næsta þriðjudag, þann 16. september, með erindi sitt “Kalda stríðið – dómur sögunnar”. Í útdrætti frá honum segir:
Í erindinu verður minnt á hernaðarlegt gildi Íslands á tímum kalda stríðsins og beinir höfundur athygli að þeim þætti átakanna milli austurs og vesturs, enda tók hann einkum til máls um þann þátt í umræðum á sínum tíma. Vakið er máls á nauðsyn þess, að veittur sé sem bestur aðgangur að öllum skjölum um kalda stríðið. Mikilvægt sé, að átta sig á þeim þáttum, sem vógu þyngst við töku ákvarðana um öryggis- og varnarmál. Það er mat höfundar, að á tíunda áratug síðustu aldar hafi næsta hávaðalítið verið rætt um stöðu Íslands í kalda stríðinu. Morgunblaðið hafi til dæmis ákveðið að hlífa þeim við uppgjöri, sem harðast vógu að blaðinu og heiðri þess á tímum kalda stríðsins. Síðan 2006 hafi umræður hins vegar verið líflegar vegna umræðna um hleranir lögreglu. Höfundur mun rekja þær umræður í erindi sínu. Hann telur fráleitt að bera það, sem hér gerðist við eftirlit með einstaklingum, saman við aðgerðir öryggislögreglu í Noregi. Hér hafi ekkert komið fram til stuðnings ásökunum um ólögmætar aðgerðir yfirvalda.
Að erindinu loknu gefst sagnfræðingum og öðrum tækifæri til að varpa fram spurningum og gera athugasemdir. Erindið verður haldið, líkt og önnur erindi fyrirlestraraðarinnar, í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands kl. 12.05-13.00.

 2008 – Hvað er að óttast?
16. september
Björn Bjarnason: Kalda stríðið – dómur sögunnar.
 
30. september
Guðni Th. Jóhannesson: „Með því að óttast má …“ Ástæður símhlerana í kalda stríðinu.
 
14. október
Guðmundur Jónsson: „Hallærasamt land en þó ekki óbyggjandi.“ Um efnahagskreppur á Íslandi og óttann við þær.
 
28. október
Viggó Ásgeirsson: Óttinn við sjúkdóma: Spænska veikin og fuglaflensan.
 
11. nóvember
Hallfríður Þórarinsdóttir: Júðar, negrar og tataralýður – ótti, ógn og meintir útlenskir óvinir Íslands.
 
25. nóvember
Óttar Guðmundsson: „Best værirðu geymdur á Kleppi!“ Fordómar gegn geðsjúkum á liðinni öld.
9. desember
Kristín Loftsdóttir: Framandi trú og kristnar rætur Íslands: Óttinn við að glata íslenskri menningu í fjölmenningarlegu samfélagi.
     2009 – Hvað er andóf?
20. janúar
Kjartan Ólafsson: Hetjudáð eða hermdarverk?
3. febrúar
Lára Magnúsardóttir: Ótti við andóf veldur andófi og ótta.
17. febrúar
Árni Daníel Júlíusson: Andóf í akademíunni.
3. mars
Jón Ólafsson: Þversögn andófsins.
17. mars
Anna Agnarsdóttir: Stjórnarbylting á Íslandi 1809: Stóð Íslendingum á sama?
 
31. mars
Sigurður Líndal: Andófið gegn Atlandshafsbandalaginu 30. marz.
 
14. apríl
Unnur María Bergsveinsdóttir: „Loksins ertu sexí!“ Íslenskur menningararfur í meðförum pönkara.
 
28. apríl
Ragnar Aðalsteinsson: Þýðing andófs fyrir lýðræðislega þróun réttarins.