Hugvísindaþing 13. og 14. mars

Athygli er vakin á hinu árlega Hugvísindaþingi sem verður haldið 13. og 14. mars í Aðalbyggingu Háskólans.
Mörg erinda á Hugvísindaþingi má ætla að vekji áhuga sagnfræðinga, sagnfræðinema og áhugamanna um sögu íslensks samfélags.

Má þar nefna eftirfarandi málstofur:
Feminísk hugmyndasaga
14. mars kl. 13.00-14.30 og 15.00-16.30
Á síðustu áratugum hefur átt sér stað mikil umræða um “kanon” (regluritsafn) sögu vestrænna hugmynda. Spurt er hvaða höfundar og viðfangsefni eru kennd í grunnnámskeiðum greina sem fást við sögu hugmynda.
 
Fornleifafræði: saga og heimspeki hluta
14. mars kl. 11.00-12.00, 13.00-14.30 og 15.00-17.00
Markmið þessarar málstofu er einmitt að undirstrika tengsl fornleifafræðinnar við aðrar greinar. Velt verður upp spurningum á borð við það hvernig og hvort rannsóknir á efnismenningu og efnisveruleika geti breytt söguvitundinni og sýninni á hvað það er að vera manneskja? Geta mannvistarleifar, einsbrotakenndar og þær eru, veitt nægilegar upplýsingar tilendurtúlkunar á sögu fortíðar og eðli mannlegrar hegðunar?
 
Ísland og Hansasambandið
14. mars kl. 13.00-14.30
Þýskir kaupmenn sóttu árlega til Íslandi frá 1475 og stunduðu hér meiri verslun en áður hafði tíðkast. Fimmtánda öld hefur verið nefnd Enska öldin og sumir nota Þýska öldin um sextándu öld Íslendingar vöndust þá í fyrsta sinn reglulegum aðflutningum erlends varnings og komust í allnáin tengsl við borgir á Þýskalandi. Ákvarðanir Hansasambandsins og ágreiningur Hansaborga fór að skipta máli á Íslandi og koma einkum við sögu Hamborg, Brimar og Lýbíka. Þessa þýsk-íslensku sögu hafa Íslendingar vanrækt að miklu leyti, þótt merkileg sé. Athugandi er hvort ekki sé brýnt um þessar mundir að rannsaka þessa sögu betur, ma. vegna umræðna um Evrópusambandið og til að kynna hana þýskum ferðamönnum.
Miðlun sögu á sýningum
13. mars kl. 15.00-17.00
Í málstofunni er fjallað um leiðir til að miðla upplýsingum á sýningum og val slíkra upplýsinga – hvað á að segja og hvernig?
Nýjustu fréttir frá fyrri öldum
14. mars kl. 10.00-12.00
17.-19. öld eru í brennidepli í þessari málstofu. Gunnar Karlsson segir fréttir af hnignun atvinnulífs frá því sem áður var. Hjalti Hugason skoðar félags- og menningarlega stöðu presta og í hve miklum mæli prestastéttin jók á félagslegan hreyfanleika í samfélaginu. Halldór Bjarnason fjallar um stöðu og völd kvenna frá 16. öld til þeirrar 19. og færir rök fyrir því að við lok þess tímabils og á fyrri hluta 20. aldar hafi völd og áhrif kvenna að sumu leyti minnkað frá því sem áður var, þrátt fyrir aukin formleg réttindi. Loks segir Már Jónsson frá endurnýtingu og eyðileggingu skinnhandrita, á sama tíma og áhugi á ritsmíðum miðalda jókst.
 
Viðhorf að utan. Orðræðan um Ísland frá 16.- 21. aldar
13. mars kl. 15.00-16.30
Í málstofunni fjalla þrír sagnfræðingar um umfjöllun útlendinga til Íslendinga allt frá 16. öld til nútíma. Hvaða ímynd af landi og þjóð endurspeglar hún og hvernig hafa Íslendingar brugðist við þegar þeim finnst á sig hallað?
 
 
Sérstök athygli er vakin á tveimur málstofum um kreppu og velferð og hlutverk hugvísindamanna í samfélagsumræðu.
 
Hlutverk hugvísindamanna í samfélagsumræðu
13. mars kl. 13.00-14.30 í stofu 101 í Lögbergi
Málshefjandi: Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki
Pallborðsumræða:
Guðni Elísson, dósent í bókmenntafræði
Gunnar Karlsson, prófessor í sagnfræði
Hjalti Hugason, prófessor í guðfræði
Hólmfríður Garðarsdóttir, dósent í spænsku
 
Salvör Nordal stýrir umræðu.
 
Velferð og kreppa
Málstofa Ritsins
13. mars kl. 15.00-16.30
Eins og undanfarin ár býður Ritið upp á málstofu á Hugvísindaþingi um málefni sem brennur á samtímanum. Árið 2007 var fjallað um innflytjendur, árið 2008 um hlýnun jarðar og í ár er einboðið að fjalla um kreppu. Fyrirlesarar eru af ólíkum sviðum hugvísinda: guðfræði, hagsögu og heimspeki. Stefnt er að því að gefa út þemahefti Ritsins um sama efni.
 
Nánari upplýsingar um þingið er að finna á vef Hugvísindastofnunar: http://www.hugvis.hi.is/page/hugvis_thing2009_Dagskra