Hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélags – „Ótti við andóf veldur andófi og ótta“

Lára Magnúsardóttir sagnfræðingur flytur erindið „Ótti við andóf veldur andófi og ótta“ þriðjudaginn 17. febrúar kl. 12:05 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands sem ber yfirskriftina Hvað er andóf?
Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.

Í lýsingu á erindinu segir:
Í sögu Vesturlanda var ótti við reiði Guðs lengst af sterkt afl sem hefur ekki aðeins sett svip sinn á líf almennings heldur einnig stjórnmálaþróun og réttarkerfi. Yfirvofandi dómur Guðs á hinsta degi átti þátt í því að veraldarhöfðingjar sættu sig við að deila valdi með kirkjunni, því af honum réðst hverjum yrði úthlutað eilífu lífi. Ekki var hægt að horfa framhjá jafnmikilvægum þætti í lífi hvers manns.
Hugmyndahreyfingar sem stönguðust á við skilning yfirvalda á skipan heimsins voru þannig hættulegar bæði stjórnvöldum og sálum mannanna. Í því skyni að koma í veg fyrir að slíkt andóf næði útbreiðslu voru gerðar breytingar á réttarkerfi kirkjunnar og keisararíkisins kringum aldamótin 1200. Þótt þær teljist enn til einna merkustu úrbóta sem gerðar hafa verið á því sviði og standi enn sem einn af hornsteinum réttarríkis sköpuðu þær jafnframt nýja hættu og ótta sem verður ef til vill enn ekki séð fyrir endann á.
Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.