Hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélags Íslands – Velferðarríkið og efnahagskreppur á Íslandi

Guðmundur Jónsson prófessor flytur erindið Velferðarríkið og efnahagskreppur á Íslandi á morgun 17. nóvember kl. 12.05 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins sem ber yfirskriftina Hvað er kreppa?
Allir velkomnir.

Í lýsingu á erindinu segir
Ísland er hvikult land ekki aðeins í jarðfræðilegum skilningi heldur einnig efnahagslegum. Hér hafa hagsveiflur verið tíðari og öfgafyllri en í flestum ríkjum Evrópu amk. síðan á 19. öld og hafa þær oft leitt til snöggra breytinga á lífskjörum almennings. Í erindinu er leitast við að svara þeirri spurningu hvaða afleiðingar þessi efnahagslegi óstöðugleiki hefur haft á þróun velferðarríkisins á Íslandi.
Sumir fræðimenn halda því fram að lönd með opin hagkerfi búi við meiri óstöðugleika en önnur og hafi því almenningur þrýst á stjórnvöld um að koma á sterku félagslegu öryggisneti. Þannig megi skýra hin öflugu velferðarríki Norðurlanda. Ætli þessi kenning eigi við um Ísland? Eða hefur óstöðugleikinn verið svo mikill á Íslandi að hann hafi leitt til hins gagnstæða: hindrað að hér festist í sessi jafnvíðtækt velferðarkerfi og annars staðar á Norðurlöndum – velferðarkerfi sem byggist á almennum félagslegum og efnahagslegum réttindum?