Hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélags Íslands – Dómi snúið? Braggabúar og breytt viðhorf

Eggert Þór Bernharðsson prófessor í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands flytur erindið “Dómi snúið? Braggabúar og breytt viðhorf” þriðjudaginn 30. mars kl. 12.05 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins sem ber yfirskriftina Hvað er dómur sögunnar?
Allir velkomnir

Í lýsingu á erindi Eggerts segir:
Braggahverfi settu sterkan svip á Reykjavík í síðari heimsstyrjöld og fyrstu áratugina eftir stríð. Á tímum skipulegrar búsetu Reykvíkinga í herskálum frá 1943 og fram eftir sjöunda áratugnum bjuggu þúsundir manna í slíkum híbýlum. Íbúar bragganna urðu iðulega að þola neikvæð viðhorf umhverfisins vegna þess eins að eiga þar heima, þeir voru jafnvel litnir hornauga og „stimplaðir“ af samfélaginu. Sumir áttu erfitt með að sætta sig við þetta og brugðust til varnar og dæmi voru um börn sem áttu í vök að verjast í skóla. Það var ekki alltaf tekið út með sældinni að vera braggabúi, ekki var nóg með að húsakynnin væru óálitleg heldur virtist á tíðum litið á íbúa herskálanna sem „óæðri Reykvíkinga“. Þótt bröggunum væri útrýmt virtust neikvæð viðhorf í garð braggabúsetunnar lifa áfram. Í erindinu er fjallað um þennan „dóm sögunnar“, hvernig hann birtist og hvort breytingar hafi orðið á viðhorfum á seinni árum og þá hvers vegna.