Fyrirlestur við Háskóla Íslands: Miðaldir og þjóðernishyggja nútímans

Prófessor Patrick Geary við Kaliforníuháskóla í Los Angeles flytur opinberan fyrirlestur í boði Hugvísindadeildar Háskóla Íslands þriðjudaginn 27. maí. Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku í stofu 301 í Árnagarði og hefst kl. 16:00.
Allir velkomnir.

Enskt heiti fyrirlestrarins er The Middle Ages and Modern Nationalism og efni hans lýsir fyrirlesarinn á þessa leið:
Eftir fall Sovétríkjanna hafa þjóðernislegar hugmyndir skotið upp kollinum að nýju og orðið kraftmiklar í mörgum löndum sem töldust til Varsjárbandalagsins. Þær hafa valdið upplausn í fyrrum Júgóslavíu og Tékkóslavíku og hleypt vaxandi spennu í samskipti þjóða og  þjóðarbrota í öðrum löndum. Vesturlönd hafa ekki verið ósnortin af þessu afturhvarfi til þjóðernislegra hugmynda: Fasisma hefur vaxið ásmegin undrahratt í Þýskalandi, eftir 1989, og nærist að sumu leyti á ótta við innflutta múslíma. Á Ítalíu hafa forgöngumenn fasista og róttækrar aðskilnaðarstefnu, eins og þeirrar sem birtist í Norðurbandalaginu svonefnda, sett sérstök þjóðernisleg samkenni á oddinn. Í Frakklandi er hægri hreyfing, undir forystu Jean-Louis Le Pen, fjandsamleg innflytjendum, og hefur náð fótfestu sem pólitískt afl. Bæði í austri og vestri hafa minnihlutahópar sem hafnað var af þjóðríkjum 19. og 20. aldar, og lengi var haldið niðri, krafist réttar sem byggist á þeirra eigin, sérstöku samkennum  Það sem krafist er getur verið allt frá réttinum að læra eigið tungumál til þjóðlegs fullveldis.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um það hvernig ófáar af þessum hreyfingum endurvekja upprunasagnir miðalda og jafnframt þjóðernisumræðu sem byggist á söguskilningi frá 19. öld og samþætta þetta kröfum sínum og baráttu í samtímanum. Aðrir hafa brugðist við þessu með því að setja fram annars konar skilning á miðöldum í því skyni að styrkja evrópska samstöðu og eindrægni. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessa ólíku afstöðu á gagnrýninn hátt og spurt hvað felist í þeirri viðleitni þjóðernissinna, og áhugamanna um evrópska samvinnu, eða alþjóðavæðingu, að gera miðaldir að tæki í málflutningi sínum. Bent verður á það hvernig nýr skilningur á miðöldum getur  afstýrt þeim háska sem fylgir báðum tilraunum til að nýta miðaldir fyrir stjórnmál nútímans.
Patrick Geary er prófessor í miðaldasagnfræði við Kaliforníuháskóla í Los Angeles og forseti Medieval Academy of America. Meðal bóka hans eru Before France and Germany: the Origins and Transformation of the Merovingian World og The Myth of Nations: The Medieval Origins of Europe og enn fremur Women at the Beginning: Women in Origin Myths from the Amazons to the Virgin Mary.  Þessa dagana annast hann kennslu við Hugvísindadeild Háskóla Íslands í námskeiði um fæðardeilur, friðarsamninga og meðferð deilna á miðöldum á námsbrautinni MA in Medieval Icelandic Studies. Kennslan á námsbrautinni er ætluð erlendum stúdentum og fer fram á ensku.