Að lesa Íslandssögu út úr grunnsýningu Þjóðminjasafnsins 11.05.

Næstkomandi þriðjudag, 13. maí kl. 12:05, mun Gunnar Karlsson sagnfræðingur leiða gesti um grunnsýningu Þjóðminjasafnsins.
Hann kallar leiðsögn sína: Að lesa Íslandssögu út úr grunnsýningu Þjóðminjasafnsins.

Grunnsýning Þjóðminjasafnsins er í fljótu bragði séð aðallega sýning á gripum með stuttum skýringartextum og ekki alltaf augljóst hvers vegna einmitt þessir gripir eru valdir til sýningar. Sýningin er þó í grundvallaratriðum söguleg, val gripa, röðun þeirra og uppsetning ræðst af því að þeir segi sem mesta og mikilvægasta Íslandssögu. Leiðsögumaður ætlar að ganga um safnið og leitast við að skýra hver sú þjóðarsaga er sem einstök sýningaratriði eiga að segja. Sýnt verður fram á að þau segi sögu af landnámi Íslands og sambúð lands og þjóðar um aldir, trúarskiptum frá heiðni til kristni, goðaveldi þjóðveldistímans, auðlegð miðaldakirkjunnar, starfi vefkvenna, plágunum miklu, áhrifum Englendinga á enskri öld, siðaskiptum til Lútherstrúar, upphafi bókaprentunar, einveldi konungs og verslunareinokun, upphafi þéttbýlismyndunar, lífi þjóðar í baðstofum og á árabátum, þjóðríkismyndun á 19. öld og atvinnubyltingunni miklu í upphafi 20. aldar.