Topographies of Globalization: Politics, Culture, Language

Í bókinni er fjallað um hugtakið og fyrirbærið hnattvæðingu út frá margvíslegum sjónarhornum, m.a. stjórnmálum, menningu, kynjamun og tungumálum. Ritstjórar eru Valur Ingimundarson, Kristín Loftsdóttir og Irma Erlingsdóttir.

Greinarnar í bókinni eru eftir íslenska og erlenda höfunda, en þær eru að hluta til byggðar á erindum sem flutt voru á alþjóðlegri ráðstefnu um hnattvæðingu við Háskóla Íslands. Meðal höfunda er pólski félagsfræðingurinn Zygmunt Bauman. Bókin er liður í alþjóðlegu rannsóknarverkefni sem skipulagt er af GERM (Groupe d‘Études et de Recherches sur les Mondialisations). þetta er rannsóknarhópur um hnattvæðingu, sem Evrópusambandið styrkir, en þátttakendur eru fræðimenn, háskólar og stofnanir. Hugtakið „hnattvæðing“ hefur verið notað til þess að lýsa síauknu flæði, hvort sem er á sviði hugmynda, menningar, hagfræði/viðskipta eða hreyfanleika fólks. Hnattvæðing hefur, rétt eins og þjóðernishyggja og nútímavæðing, verið umdeilt fyrirbæri og haft víðtæk þjóðfélagsleg áhrif. Greinasafninu er skipt í fjóra samtengda hluta. Í fyrsta hlutanum er m.a. fjallað um togstreituna milli hins hnattræna og staðbundna og endurmótun pólitískra valdatengsla milli „hins vestræna og hinna“, „stríðið gegn hryðjuverkum“ og átakastjórnun. Í öðrum hluta er lögð áhersla á menningarhugtakið og flæði sjálfsmynda í tengslum við afmarkanir hnattvæðingar í rými. Áhrif hnattvæðingar á mismunun, t.d. hvað varðar breytur eins kyn, stétt og þjóðerni, eru tekin fyrir í þriðja hluta. Að lokum, í fjórða hluta, er fjallað um hnattvæðingu út frá tungumálafræð og þýðingum í fjölmiðlavæddum og „hröðuðum“ heimi. Bókin á erindi við alla sem hafa áhuga á þeim fjölþættu málefnum sem tengjast hnattvæðingu.

Vorhefti Sögu komið út

Saga, tímarit Sögufélags, er komið út. Meðal efnis er viðtal Auðuns Arnórssonar við breska sagnfræðinginn Alan S. Milward, en þeir ræddu einkum um sögu samrunaferlisins í Evrópu, atriði sem mjög hefur verið í sviðsljósinu undanfarin misseri.

Tímaritið Saga hóf göngu sína árið 1950. Frá 2002 hefur tímaritið komið út í tveimur heftum árlega, vor og haust. Það hefur löngu áunnið sér sess sem fremsta fagtímarit íslenskra sagnfræðinga.
Ritstjórar Sögu eru Hrefna Róbertsdóttir og Páll Björnsson.

Stjórnarráð Íslands 1964-2004

Í tilefni af eitt hundrað ára afmæli Stjórnarráðsins er ritið Stjórnarráð Íslands 1964-2004, 1. og 2. bindi, komið út og gert er ráð fyrir að 3. bindi komi út á haustdögum. Ritið er hugsað sem framhald á tveggja binda verki Agnars Kl. Jónssonar, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, sem kom út árið 1969.

Í tilefni af eitt hundrað ára afmæli Stjórnarráðs Íslands er komið út ritið Stjórnarráð Íslands 1964-2004, 1. og 2. bindi. Ákvörðun um samningu ritsins var tekin af stjórnvöldum árið 1999. Ritstjórn skipuðu Björn Bjarnason (formaður), Heimir Þorleifsson og Ólafur Ásgeirsson, en ritstjóri er Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur.
Fyrsta bindið nefnist Skipulag og starfshættir, og eru aðalhöfundar þess Ásmundur Helgason lögfræðingur og Ómar H. Kristmundsson
stjórnsýslufræðingur; auk þeirra eiga Gunnar Helgi Kristinsson, Kristjana
Kristinsdóttir, Ingibjörg Sverrisdóttir og Sumarliði R. Ísleifsson kafla í
bindinu. Hér er rakin þróun Stjórnarráðsins frá stofnun þess og fram til
1969 þegar ný lög voru sett um Stjórnarráðið. Þá eru raktar breytingar sem
síðan hafa orðið á skipulagi Stjórnarráðsins sem og á hugmyndum um hlutverk þess. Gefið er yfirlit yfir sögu allra ráðuneyta, gerð grein fyrir hlut Stjórnarráðsins í laga- og reglusetningu sem og hvernig eftirliti Alþingis með starfsemi framkvæmdavaldsins hefur breyst á tímabilinu.
Annað bindið nefnist Saga ríkisstjórna og helstu framkvæmdir til 1983. Höfundar þessa bindis eru Ólafur Rastrick sagnfræðingur, sem skrifar um viðreisnartímabilið (fram til 1971), og Sumarliði R. Ísleifsson sem skrifar um tímabilið 1971-1983. Í hvorum hluta er rakin stjórnmálaþróun og helstu verkefni ríkisstjórna, mennta- og velferðarmál, atvinnu- og umhverfismál sem og utanríkismál. Hér er m.a. fjallað um stjórnarmyndanir, samskipti innan ríkisstjórna og einkenni á stjórnarstefnu hvers tíma. Í þriðja bindi verksins, sem kemur út síðar á árinu, verður tímabilinu frá 1983 og til þessa dags gerð skil.

Norden och Europa 1700-1830. Synvinklar på ömsesidigt kulturellt inflytande

Ritið hefur að geyma greinar sem byggjast á fyrirlestrum sem haldnir voru á norrænni ráðstefnu Félags um átjándu aldar fræði 14.-15. júní 2002. Ráðstefnan var haldin í Odda, Háskóla Íslands. Haldnir voru 13 fyrirlestrar, þar af 8 af Íslendingum en 5 frá öðrum Norðurlöndum.

Hér eru birtar 11 greinar, sjö á ensku, tvær á dönsku (með útdráttum á ensku) og tvær á sænsku (með útdráttum á frönsku). Þetta var fyrsta norræna ráðstefnan sem félagið efndi til en það hefur nú starfað í tíu ár. Greinarnar fjalla um hin ólíkustu svið átjándu aldar fræða þar sem Upplýsingin er vissulega áberandi þáttur. Áhrif hennar hafa verið rannsökuð hér á landi af miklum krafti undanfarinn áratug  og hefur árangur þess birst á ráðstefnum félagsins með ýmsum hætti.
Ritið er fyrsta prentaða ritið sem Félag um átjándu aldar fræði gefur út. Með því eru margvísleg áhrif Upplýsingarinnar á Íslandi kynnt fyrir öðrum þjóðum og lesendur geta fræðst hér um ýmsa þætti í andlegu lífi átjándu aldar manna á Norðurlöndum.
Ritstjóri er Svavar Sigmundsson.

Tómas af Aquino: Um lög

Tómas af Aquino var einn mesti hugsuður kirkjunnar á miðöldum og jafnframt einn merkilegasti heimspekingur vesturlanda fyrr og síðar og ná áhrif hans langt út fyrir raðir kristinna manna. Um lög er sá hluti af höfuðritverki Tómasar, Summa Theologiæ, sem fjallar um eðli laga og er enn í dag grundvallarrit bæði í lögfræði og heimspeki.

Í ritinu veltir Tómas því m.a. fyrir sér hvort lögum sé ætíð skipað til almannaheilla, hvort til séu eilíf lög, hvort til séu lög lostans og hvort lög manna skuldbindi samvisku manna. Í heimspeki sinni styðst Tómas mjög víða við verk Aristótelesar, ekki síst siðfræði hans. Það var fyrst og fremst fyrir tilstilli Tómasar að Aristóteles varð heimspekingur kirkjunnar á miðöldum. Fyrir tíma Tómasar höfðu kristnir hugsuðir, t.d. Ágústínus kirkjufaðir, einkum litið til Platons en haft litlar mætur á Aristótelesi.
Garðar Gíslason hæstaréttardómari skrifar ítarlegan og fróðlegan inngang að bókinni þar sem hann segir frá ævi Tómasar og gerir grein fyrir meginhugmyndum hans um eðli laga. Þýðandi er Þórður Kristinsson kennslustjóri HÍ.

Nordic Historical National Accounts. Proceedings of Workshop VI, Reykjavík 19-20 September 2003

Ritið Nordic Historical National Accounts hefur að geyma 13 greinar frá ráðstefnu um sögulega þjóðhagsreikninga sem haldin var í september 2003 af Sagnfræðistofnun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Ritið gefur góðan þverskurð af þeim fjölbreytilegum rannsóknum sem stundaðar eru á sögulegri þróun þjóðarframleiðslu og annarra hagstærða á Norðurlöndum.

Í september 2003 var haldin ráðstefna um sögulega þjóðhagsreikninga á vegum Sagnfræðistofnunar og Hagfræðistofnunar í Háskóla Íslands. Ritið Nordic Historical National Accounts hefur að geyma 13 greinar frá ráðstefnunni og gefur góðan þverskurð af þeim fjölbreytilegum rannsóknum sem stundaðar eru á sögulegri þróun þjóðarframleiðslu og annarra hagstærða á Norðurlöndum. Fjallað er bæði almennt um framlag þjóðhagsreikninga til hagvaxtar og afmörkuð efni s.s. áætlanir á hagstærðum, rætur hagvaxtar og aðferðafræðileg álitamál. Ritið er gefið út af Sagnfræðistofnun.
Höfundar greina eru eftirtaldir hagsögufræðingar og hagfræðingar frá Norðurlöndum og Hollandi: Jan-Pieter Smits, Niels Kærgård, Ola Grytten, Peter Vikström, Jari Kauppilla, Elisabeth Bjorsvik, Johanna and Seppo Varjonen, Carl-Axel Nilsson, Magnus Lindmark, Sveinn Agnarsson, Guðmundur Jónsson, Ragnar Árnason, Jukka Jalava og Pirkko Aulin-Ahmavaara.

Helgi Skúli Kjartansson og Steinþór Heiðarsson: Framtíð handan hafs

Hér fjalla Helgi Skúli Kjartansson og Steinþór Heiðarsson um flest það sem tengist versturferðum Íslendinga til Ameríku um aldamótin 1900. Saga ferðanna er rakin og hún meðal annars borin saman við vestuferðir annarra Evrópuþjóða.

Í lögfræðiþætti Ísafoldar 1891 spyr maður hvort það hafi verið rétt af sveitarstjórn sinni að senda konu sína og börn til Ameríku “án míns vilja og vitundar, af þeirri ástæðu, að henni hafði verið lagt af sveit lítils háttar, meðan ég var að stunda atvinnu í öðrum landsfjórðungi, mér og mínum til framfæris …”
Frá þessu og ótalmörgu öðru varðandi fólksflutninga Íslendinga til Ameríku á áratugunum í kringum 1900 er sagt í bókinni. Hér er saga íslensku vesturferðanna rakin og borin saman við vesturfarasögur annarra Evrópuþjóða. Lýst er störfum umboðsmanna skipafélaga, sem störfuðu að því að hvetja fólk til vesturfarar. Rætt er um fargjöld, farartíma, umræður og löggjöf um ferðirnar. Fjöldi íslenskra vesturfara er áætlaður nákvæmlega út frá heimildum, bæði af landinu í heild og úr einstökum héruðum. Rætt er um hvers konar fólk fór einkum vestur, hvers vegna það kaus að leggja upp í svo langa ferð og hvaða afleiðingar fólksflutningarnir höfðu á samfélag Íslendinga.