End of Iceland's Innocence

Daniel Chartier höfundur bókarinnar, The End of Icelands Innoence, sem fjallar um
ímynd Íslands í erlendum fjólmiðlum.
Niðurstaðan er dramatísk, Ísland fellur úr háum söðli.
Landið sem var saklaust, stórkostlegt, töff og kúl verður allt í einu að heimili
þjófa, svindlara og gjaldþrota ríki. Ísland séð utanfrá. Erfiður lestur fyrir
Íslendinga.

Daniel Chartier höfundur bókarinnar, The End of Icelands Innoence, sem fjallar um ímynd Íslands í erlendum fjólmiðlum verður á landinu um næstu helgi. 
Daníel Chartier er prófessor  við Háskólann í Quebec og hefur gert viðamikla könnun
á ímynd Íslands einsog hún þróaðist frá uppsveiflu yfir í hrun. 
Niðurstaðan er dramatísk, Ísland fellur úr háum söðli. 
Landið sem var saklaust, stórkostlegt, töff og kúl verður allt í einu að heimili
þjófa, svindlara og gjaldþrota ríki.  Ísland séð utanfrá. Erfiður lestur fyrir
Íslendinga. 
Áritun og útgáfuhóf verður í Bókabúð Máls og Menningar frá 14.00-15.00 sunnudaginn
7. nóvember. Bókin verður á sérstöku tilboðsverði á meðan á áritun stendur.

Wasteland With Words: A social history of Iceland

Út er kominn bók eftir Sigurð Gylfa Magnússon sagnfræðing er ber heitið Wasteland With Words: A social history of Iceland.
Wasteland With Words er umfangsmikil rannsókn á félagslegri og sögulegri þróun Íslands frá smáu sjávarútvegshagkerfi til hnattvædds efnhagslegs smáveldis. Bókin höfðar til allra þeirra sem áhuga hafa á þessu dularfulla eysamfélagi í Norður Atlantshafi og fyrir þá sem áhuga hafa á menningarsögu og félagssögu.

Í bókinni skoðar Sigurður Gylfi þróun og umbreytingu íslensks samfélags og menningar með því að rannsaka þá bókmenntalegu og sögulegu þætti sem mótað hafa þá íslensku menningararfleið sem landinn nýtur í samtímanum. Sigurður útlistar greiningu sína á sögu þessarar eyju á nákvæman og umfangsmiklan hátt, með því að skoða hvernig eitt frumstæðasta og fátækasta efnahagskerfi 19.aldar, grundvallað á sjávarútvegi og landbúnaði, óx í það að verða stórt og ríkt hagkerfi, þrátt fyrir fámenni og smæð í mörgu tilliti og á meðan viðhaldið sterkri menningarlegri sjálfsmynd. Nýjustu atburðir í sögu Íslendinga, hrun fjármálakerfis og kreppa íslenskra stjórnmála verða einnig tekin til greiningar og þau sett í sögulegt samhengi.
Ritdómur hefur birst um bókina í The Economist
Sigurður Gylfi Magnússon er sagnfræðingur að mennt og hefur um árabil fengist við rannsóknir á einsögu og íslenskri félags- menningar- og menntasögu svo dæmi séu tekin.

Ferðabækur Magnúsar Stephensen 1807-1808

Sögufélagið hefur gefið út Ferðadagbækur Magnúsar Stephensen 1807-1808. Um útgáfur þessa sáu Anna Agnarsdóttir og Þórir Stephensen.
Dagbækurnar veita afar áhugaverða innsýn inn í þá umbrotatima á Íslandi og í Evrópu á þessum árum.

Árið 1807 gerðu Bretar stórskotaárás á Kaupmannahöfn og gengu Danir þá í lið með Frökkum. Breski flotinn var allsráðandi í norðurhöfum og hertók flest Íslandsskip. Magnús Stephensen var á einu þessara skipa og í þremur dagbókarbrotum frá 1807–1808 lýsir hann ferð sinni, hertökunni, dvöl sinni í Leith og Kaupmannahöfn og tilraunum sínum til að koma landsmönnum til hjálpar. Hann gaf út Eftirmæli átjándu aldar á dönsku, skrifaði fræðigreinar, nam ensku og sótti tónleika og veislur hjá fyrirmönnum. Napóleonsstyrjaldirnar eru alltaf í bakgrunninum, Kristján VII deyr og Friðrik VI tekur við ríkjum. Loks segir hann frá dvöl sinni í Björgvin þar sem hann leitaðist við að semja við norska kaupmenn um Íslandssiglingu. Einnig er hér birt ferðadagbók hans frá haustinu 1799.

Vorhefti Sögu 2010

Vorhefti Sögu kom út á dögunum. Markar ritið upphaf 48 árgangs og inniheldur fjölda áhugaverða umfjallana um söguleg efni.


Vorhefti Sögu 2010 kom út á dögunum. Elín Hafstein, fædd árið 1869 á Möðruvöllum í Hörgárdal, prýðir forsíðu tímaritsins að þessu sinni sem inniheldur fjölbreytt efni að vanda. Auk greinar Sigrúnar Sigurðardóttur um efni forsíðunnar skulu fyrst nefndar tvær greinar. Sú fyrri er eftir Davíð Ólafsson og fjallar um alþjóðlega strauma í rannsóknum á handritamenningu síðari alda og hvernig þær rannsóknir geta nýst til skilnings á íslenskri bókmenningu eftir siðaskipti. Sú síðari er eftir Rósu Magnúsdóttur og fjallar um íslenskar ferðalýsingar á Sovétríkjunum. Í nýjum bálki Sögu sem nefnist „Sögur og tíðindi“ birtast tvær greinar. Karl Aspelund skrifar um handrit að ferðabók um Ísland sem nýlega fannst í bókasafni í Bandaríkjunum, og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson segir okkur frá þjálfun bandarískra geimfara á Íslandi á 7. áratugnum. Þá heldur deila Jóns Ólafssonar og Þórs Whitehead um samskipti íslenskra kommúnista og Komintern áfram með svari Jóns í viðhorfsgrein.
Spurning Sögu varðar sögulegar rætur 26. greinar stjórnarskrárinnar, sem kveður á um vald forseta til að synja lagafrumvarpi staðfestingar. Auk þess að varpa ljósi á forsögu þessa ákvæðis – í svörum sérfræðinganna koma fram ýmsar nýjar sögulegar staðreyndir um tilurð þess – og ólíkan skilning á því í tímans rás, má ætla að svör sérfræðinganna sem hér birtast geti orðið innlegg í umræðu um endurskoðun stjórnarskrárinnar og framtíð forsetaembættisins.
Í vorhefti Sögu birtast nú 11 ritdómar, flestir um bækur sem komu út á síðasta ári. Að lokum skulu nefnd erindi sem flutt voru í tilefni veitingar doktorsnafnbótar í heiðursskyni til Ólafíu Einarsdóttur í nóvember árið 2009. Ólafía var frumkvöðull á ýmsum sviðum, meðal annars var hún fyrst íslenskra kvenna til að ljúka doktorsprófi í sagnfræði.
Sjá má efnisyfirlit hér.
Saga fæst í öllum helstu bókabúðum og jafnframt hjá útgefandum sjálfum, Sögufélaginu í Fishersundi, Reykjavík.

Vorhefti Skírnis 2010 – Tímarits hins íslenska bókmenntafélags

Vorhefti Skírnis 2010 er komið út. Greinar um byltinguna á Bessastöðum, tímasetningu landnáms, kynþáttahyggju á Íslandi og margt fleira athyglisvert efni.
Skírnir er 260 blaðsíður að stærð að þessu sinni og markar vorheftið 2010 upphaf 184. árgangs. Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag en ritstjóri er Halldór Guðmundsson.

Út er komið vorhefti Skírnis, tímarits Hins íslenska bókmenntafélags. Tímaritið vill leggja sitt til umræðunnar sem hafin er á Íslandi um lærdóma af bankahruninu og breytingar á stjórnskipan og stjórnarskrá, á málefnalegan og fræðilegan hátt eftir því sem kostur er. Þannig eru í þessu hefti tvær greinar sem tengjast hugmyndum um stjórnarskrá og hlutverk forsettaembættisins, skrifaðar frá ólíkum sjónarhornum. Annars vegar er það söguleg umfjöllun Svans Kristjánssonar um sambandsslitin 1944, þar sem hann ræðir ólíkan skilning ráðamanna á lýðræði og valdi sem enn setur svip sinn á stjórnmál samtímans, og hins vegar grein Guðna Th. Jóhannessonar um breytingar á forsetaembættinu í valdatíð Ólafs Ragnars Grímssonar, sem hann nefnir Byltingin á Bessastöðum og sem um sumt kallast á við niðurstöður rannsóknarnefndarinnar um siðferði og starfshætti, þó að grein Guðna sé samin áður en nefndin lýsti niðurstöðum sínum. Í Skírnismálum er svo að finna hugleiðingu Árna Björnssonar um sjálfa undirrót bankahrunsins.

Það má greina enduróm af helstu deilumálum okkar tíma í tveimur öðrum Skírnisgreinum að þessu sinni, og er önnur skrifuð frá mannfræðilegu en hin þjóðfræðilegu sjónarmiði: Kristín Loftsdóttir skrifar um kynþáttahyggju og fordóma á Íslandi, meðal annars með dæmum úr skáldskap, en Bryndís Björgvinsdóttir ræðir um átök um menningararf í samtímanum. Menningararfurinn kemur reyndar við sögu í fróðlegri samantekt Braga Þ. Ólafssonar um tillögur góðra manna um að koma íslensku handritunum í skjól í heimsstyrjöldinni síðari. Þá halda áfram skoðanaskiptin um tímasetningu landnáms á Íslandi sem Páll Theodórsson hóf í síðasta Skírni, því að starfsfélagi hans Þorsteinn Vilhjálmsson svarar honum hér. Annað andsvar birtist í Skírnismálum, þar sem Þorsteinn Þorsteinsson bregst við umfjöllun Bergljótar Kristjánsdóttur um bók hans um Sigfús Daðason og ljóðagerð hans. Þorsteinn á jafnframt aðra grein í heftinu, um kvæðabálk Halldórs Laxness um unglinginn í skóginum og stöðu hans í ljóðlist samtímans. Loks ritar Ármann Jakobsson eins konar inngang að íslenskum draugafræðum.
Í bókmenntahlutanum er að finna áður óbirt ljóð eftir þau Anton Helga Jónsson og Ingunni Snædal, en ritdómana skrifa þau Gunnþórunn Guðmundsdóttir um Þórbergsbækur Péturs Gunnarssonar, og Björn Bjarnason um bók Árna Heimis Ingólfssonar um Jón Leifs.
 
Myndlistarmaður Skírnis að þessu sinni er Hildur Hákonardóttir, og fjallar Hrafnhildur Schram um þrjá myndvefnaði hennar. Kápumynd er eftir Hildi Hákonardóttur en Steinholt annaðist prentun.

Nordic Perspectives on Encountering Foreigness

Síðla árs í fyrra gaf norræna rannsóknarnetið, Encountering Foreingness – Nordic Perspectives since the Eighteenth Century, út safnrit er inniheldur tvær greinar um Ísland. Nefnist safnrit þetta Nordic Perspectives on Encountering Foreigness.

Síðla árs í fyrra gaf norræna rannsóknarnetið, Encountering Foreingness – Nordic Perspectives since the Eighteenth Century (ENFORE), út safnrit er inniheldur tvær greinar um Ísland. Nefnist safnrit þetta Nordic Perspectives on Encountering Foreigness og má nálgast endurgjaldslaust hér.
Rannsóknarnet þetta miðar að því að rannska hvernig hugtakið „framandleiki” (e. foreingness) hefur verið túlkað og meðhöndlað allt frá átjándu öld. Einblína rannsakendur á hvernig hugtökin hafa birst innan norrænu ríkjana en einnig í löndum utan Norðurlanda. Aðilar að rannsóknarnetinu koma úr fræðageirum hug- og félagsvísinda, nánar tiltekið sagnfræði, mannfræði og þjóðfræði. Koma allir fræðimenn frá Norðurlöndunum og á einn íslenskur sagnfræðingur, Íris Ellenberger, aðild að rannsóknarnetinu.
Sjá nánar á heimasíður rannsóknarnetsins: http://www.enfore.utu.fi/

Saga viðskiptaráðuneytisins 1939-1994

Út er komin Saga viðskiptaráðuneytisins 1939-1994. Í bókinni er saga viðskiptaráðuneytisins rakin frá upphafi til ársins 1994. Dregið er fram hvernig viðskiptastefna stjórnvalda þróaðist frá höftum til viðskiptafrelsis þar sem frjáls samkeppni fyrirtækja, valfrelsi neytenda og leiðbeinandi hlutverk ríkisins eru ráðandi. Lýst er hvernig ráðuneytið átti þátt í að móta umrædda stefnu og hvernig það kom að framkvæmd hennar. Sérstök áhersla er lögð á þá málaflokka sem lítið hefur verið fjallað um í fræðiritum, eins og Marshallaðstoðina, verðlagsmál, viðskipti við Austur-Evrópuríkin og efnahagssamvinnu Norðurlandanna. Ítarleg atriðaskrá er í bókinni og gefur henni handbókargildi. Bókin er gefin út í samvinnu viðskiptaráðuneytisins og Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Út er komin Saga viðskiptaráðuneytisins 1939-1994. Í bókinni er saga viðskiptaráðuneytisins rakin frá upphafi til ársins 1994.  Dregið er fram hvernig viðskiptastefna stjórnvalda þróaðist frá höftum til viðskiptafrelsis þar sem frjáls samkeppni fyrirtækja, valfrelsi neytenda og leiðbeinandi hlutverk ríkisins eru ráðandi.  Lýst er hvernig ráðuneytið átti þátt í að móta umrædda stefnu og hvernig það kom að framkvæmd hennar. Sérstök áhersla er lögð á þá málaflokka sem lítið hefur verið fjallað um í fræðiritum, eins og Marshallaðstoðina, verðlagsmál, viðskipti við Austur-Evrópuríkin og efnahagssamvinnu Norðurlandanna. Ítarleg atriðaskrá er í bókinni og gefur henni handbókargildi.
Bókin er gefin út í samvinnu viðskiptaráðuneytisins og Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands.
Ritið er 20. bindi í ritröðinni Sagnfræðirannsóknir – Studia historica sem Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands gefur úr. Ritstjóri er Gunnar Karlsson.

Út er komið hausthefti Sögu 2008

Efnið í nýjasta hefti tímaritsins Sögu er bæði fjölbreytt og spennandi. Þar er t.d. fjallað um ímyndarskýrslu forsætisráðuneytis, Landnámu, Komintern, stjórn Dana á Íslandi, Stasi, glímufélagið Ármann, Viðeyjarklaustur, íslenskar heimildamyndir og gildi munnlegrar sögu.

Lengri greinar eru fjórar. Fyrst má nefna að Auður A. Ólafsdóttir fjallar um nýlega ímyndarskýrslu forsætisráðuneytis og hvernig myndlistarmenn hafa tekist á við þá ímynd af Íslandi sem hvað mest hefur verið haldið á lofti í tengslum við fjármálaútrás síðustu ára. Þá greinir Björn Ægir Norðfjörð heimildagildi og viðfangsefni nýlegra íslenskra heimildamynda. Hann telur að myndirnar sýni ekki þverskurð af samfélaginu og að aðferðafræðilega einkennist þær af einsleitni. Í þriðja lagi fjallar Þór Whitehead um aðdragandann að stofnun Sósíalistaflokksins árið 1938. Hann gagnrýnir nýlega greiningu Jóns Ólafssonar í Sögu á hlut Alþjóðasambands kommúnista, Kominterns, og færir rök fyrir því að stofnun flokksins hafi verið eftir skilyrðum sambandsins. Loks fjalla Birgir Guðmundsson og Markus Meckl um Ísland og Íslendinga í skjölum austurþýsku öryggislögreglunnar Stasi. Þeir ræða m.a. um hvað beri að varast í notkun skjalanna; þau sýni tortímingarmátt Stasi um leið og þau dragi upp mynd af sýndarveruleika.
Viðhorfsgreinar eru fjórar. Gunnar Karlsson veltir því fyrir sér hvort aldalöng yfirráð Dana yfir Íslandi hafi verið böl eða blessun fyrir Íslendinga. Niðurstaða hans er sú að Íslendingar hafi almennt farið frekar vel út úr samskiptunum við Dani. Í öðru lagi sýnir Jón M. Ívarsson fram á að glímufélagið Ármann sé töluvert yngra en talið hefur verið. Þá fjallar Sveinbjörn Rafnsson um heimildagildi Landnámu. M.a. nefnir hann skilning óbyggðanefndar á frumstofnun eignarréttar og færir rök fyrir því að sá skilningur komi ekki að öllu leyti heim við sögulegar heimildir. Loks veltir Þórir Stephensen fyrir sér mikilvægi Viðeyjar sem sögustaðar og færir rök fyrir því að nauðsynlegt sé að halda áfram fornleifarannsóknum í eynni.
Þá er tvíþætt umfjöllun um munnlega sögu. Annars vegar er viðtal Unnar Maríu Bergsveinsdóttur við einn þekktasta forvígismann Finna á þessu sviði, Ulla-Maija Peltonen. Hins vegar ræðir Birna Björnsdóttir um hvernig nýta megi munnlega sögu til að kveikja áhuga nemenda á sögunni og vekja þá til umhugsunar um hvernig saga kennslubókanna verði til.
Í sjónrýnisbálknum ræðir Þórarinn Guðnason um Samuel Kadorian og fágætar ljósmyndir hans frá Íslandi, sem Kvikmyndasafn Íslands eignaðist fyrir skömmu. Hugleiðinguna ritar Guðni Th. Jóhannesson og veltir hann fyrir sér stöðu íslenskrar sagnfræði. Út úr skjalaskápnum dregur síðan Hrafnkell Lárusson fram handskrifaða lækningabók úr Héraðsskjalasafni Austfirðinga. Loks má nefna að ritdómar og ritfregnir eru á sínum stað.
Ritstjórar Sögu eru Eggert Þór Bernharðsson og Páll Björnsson.
Nánari upplýsingar um heftið er að finna á vefsíðu Sögufélags: http://www.sogufelag.is

Saga Íslands IX. bindi

Í þessu bindi er hin almenna saga rakin frá lokum 18. aldar til ársins 1874. Greint er frá endalokum Alþingis og stofnun Landsyfirréttar, en þessir atburðir, ásamt því að biskupsstólarnir í Skálholti og á Hólum eru lagðir niður, marka upphaf nútímaríkis á Íslandi. Sögunni lýkur síðan við þjóðhátíðarárið 1874. Bókin skiptist í þrjá meginkafla.

Höfundur fyrsta meginkaflans er Anna Agnarsdóttir prófessor og nefnist hann Aldahvörf og umbrotatímar. Þar er gerð grein fyrir áðurnefndum tímamótum og í framhaldi af því stöðu Íslands í Napóleonsstyrjöldunum 1800-1814, en þá lendir Ísland á áhrifasvæði Bretlands og tengslin við Danmörku slakna. Ríkisgjaldþrot verður 1813, verðbólga og vöruskortur fylgir, skipt er um mynt. Einstakur atburður verður árið 1809 þegar ævintýramaðurinn Jörgen Jörgensen gerir byltingu á Íslandi með fulltingi enskra kaupmanna og lýsir yfir sjálfstæði Íslands. Loks er greint frá skólamálum, þar á meðal latínuskólanum á Bessastöðum og Hausastaðastóla, og viðgangi Reykjavíkur sem höfuðstaðar Íslands.
Næsti meginkafli er eftir Gunnar Karlsson prófessor og ber hann heitið upphafsskeið þjóðríkismyndunar. Þar er gerð grein fyrir íbúum landsins, atvinnuvegum og þjóðarhag. Þessu næst er stjórnmálasagan rakin, en þar verða þáttaskil um 1830 þegar pólitísk vakning verður meðal Hafnar-Íslendinga fyrir áhrif júlíbyltingarinnar í Frakklandi. Eftir það snýst sagan um stjórnskipuleg tengsl Danmerkur og Íslands og eru þar þrír áfangar mikilvægastir, stofnun eða endurreisn Alþingis 1843, afnám einveldis 1848 og stöðulögin 1871 ásamt stjórnarskránni 1874. Þá er greint frá þróun lýðræðis, þar á meðal kosningum til Alþingis, lýðræðisstarfi almennings og viðgangi verslunarfrelsis. Loks er sagt frá hvernig almennum mannréttindum var háttað, þar á meðal réttindum kvenna, og einstaklingsbundnum réttindum almennings.
Bókmenntasögukaflann ritar Þórir Óskarsson bókmenntafræðingur og fellur sú saga vel að því tímabili sem er viðfangsefni þessarar bókar. Upphafið markast af náttúru- og ættjarðarljóðum Bjarna Thorarensen, en með þeim berast fyrstu straumar rómantísku stefnunnar til Íslands sem annars er talin ná hingað til lands um 1830. Því er lýst hvernig rómantíska stefnan átti þátt í að efla þjóðarvitund Íslendinga og þjóðfélagslega virkni. Síðan fylgja sérstakir kaflar um skáldskapar- og fagurfræði, kveðskap, sagnagerð og leikritun, þjóðsagnasöfnun og þýðingar sem verða mikilvægur þáttur í bókmenntum Íslendinga. Þessum meginkafla lýkur við árið 1882, en þá birtist fyrsta og eina hefti tímaritsins Verðandi en við útkomu þess er miðað upphaf raunsæisstefnunnar í bókmenntum Íslendinga.
Ritstjórn: Sigurður Líndal og Pétur Hrafn Árnason
Ritið er 516 blaðsíður.

Þýska landnámið

Út er komið nýtt Smárit Sögufélags – Þýska landnámið eftir Pétur Eiríksson sagnfræðing.
Árið 1949 fluttust á fjórða hundrað Þjóðverjar til Íslands þegar reynt var að leysa vinnuaflsþörf landbúnaðarins með því að ráða verkafólk frá Þýskalandi á íslenska sveitabæi. Í Þýska landnáminu, sem gefið er út í flokknum Smárit Sögufélags, fjallar Pétur Eiríksson sagnfræðingur um aðdraganda og fyrirkomulag þess að Búnaðarfélag Íslands réðst í að leita út fyrir landsteinana eftir vinnufólki. Með hjálp viðtala við fjölmarga úr hópi innflytjenda og rannsóknum í innlendum og þýskum skjalasöfnum er dregin upp mynd af aðstæðum fólksins, samskiptum við heimamenn og aðlögun þess að íslenskum staðháttum og menningu. Margir úr hópnum settust að hér á landi til frambúðar og eiga samtals á annað þúsund afkomendur á Íslandi.
Bókin fæst í Sögufélagi, Fischersundi. Almennt verð er kr. 2.300,-. Félagsverð Sögufélaga er kr. 1.900,-.

Árið 1949 fluttust á fjórða hundrað Þjóðverjar til Íslands þegar reynt var að leysa vinnuaflsþörf landbúnaðarins með því að ráða verkafólk frá Þýskalandi á íslenska sveitabæi. Í Þýska landnáminu, sem gefið er út í flokknum Smárit Sögufélags, fjallar Pétur Eiríksson sagnfræðingur um aðdraganda og fyrirkomulag þess að Búnaðarfélag Íslands réðst í að leita út fyrir landsteinana eftir vinnufólki. Með hjálp viðtala við fjölmarga úr hópi innflytjenda og rannsóknum í innlendum og þýskum skjalasöfnum er dregin upp mynd af aðstæðum fólksins, samskiptum við heimamenn og aðlögun þess að íslenskum staðháttum og menningu. Margir úr hópnum settust að hér á landi til frambúðar og eiga samtals á annað þúsund afkomendur á Íslandi.
 
Bókin fæst í Sögufélagi, Fischersundi. Almennt verð er kr. 2.300,-. Félagsverð kr. 1.900,-.