Hver var W.G. Collingwood? Málþing í tengslum við sýninguna Sögustaðir – í fótspor W.G. Collingwoods

Laugardaginn 27. nóvember verður haldið málþing í Þjóðminjasafni Íslands í
tengslum við sýningu Einars Fals Ingólfssonar Sögustaðir – í fótspor W.G.
Collingwoods og samnefnda bók sem kom út s.l. vor. Á þinginu munu dr.
Matthew Townend, prófessor í miðaldafræðum við háskólann í York, og Þóra
Kristjánsdóttir listfræðingur og sérfræðingur hjá Þjóðminjasafni Íslands,
fjalla um fornfræðinginn og listamanninn W.G. Collingwood, ævistarf hans
og Íslandsferðina árið 1897. Að auki mun Einar Falur segja frá samtali
þriggja tíma, eins og það birtist í Sögustöðum.
Þingið stendur kl. 13-15 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
Málþingið er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands og the
English-Speaking Union á Íslandi.

W.G. Collingwood kom til landsins árið 1897 til að mála myndir af stöðum
sem koma fyrir í Íslendingasögunum og um leið skapaði hann merkar
heimildir um íslenskan samtíma. Á árunum 2007-2009 naut Einar Falur
Ingólfsson leiðsagnar Collingwoods á ferð sinni milli íslenskra sögustaða.
Hann hefur farið milli staða þar sem breski listamaðurinn vann og stuðst
við myndverk hans og skrif. Í verkum þeirra birtast myndir af stöðum sem
oft láta lítið yfir sér en eru hlaðnir sögulegri merkingu.
Dr. Matthew Townend hefur stundað rannsóknir á lífi og ferðum W.G.
Collingwood og gaf nýverið út bók sem greinir frá ævi og störfum hans.
Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur hefur um árabil miðlað af þekkingu
sinni um listir fyrri alda á Íslandi. Hún hefur starfað við Þjóðminjasafn
Íslands frá árinu 1987.
Á sýningunni Sögustaðir – í fótspor W.G. Collingwoods sem nú stendur í
Bogasal Þjóðminjasafns Íslands má sjá úrval ljósmynda Einars Fals auk
hluta þeirra rúmlega 300 verka sem Collingwood málaði hér á landi, en stór
hluti myndanna frá ferð hans er varðveitur í Þjóðminjasafninu.
Dagskrá:
13:00   Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður setur þingið
13:10   Þóra Kristjánsdóttir: Íslandsleiðangur Collingwoods og dr. Jóns
Stefánssonar sumarið 1897
13:30   Dr.Matthew Townend: W.G. Collingwood and the Vikings
14:15   Einar Falur Ingólfsson: Þrír tímar og tilraun til að tengja þá
saman
        – Um samtalið milli verka okkar Collingwoods.
15:00   Kaffi/Coffee
Fundarstjórn: Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir
Fyrirlestrar verða ýmist á ensku eða íslensku. Útdráttur erinda á íslensku
og ensku liggur frammi í fyrirlestrasal.
Þóra Kristjánsdóttir:
Íslandsleiðangur Collingwoods og Jóns Stefánssonar sumarið 1897
Í erindinu mun Þóra tala stuttlega um Collingwood og ferð hans um Ísland
með Jóni Stefánssyni sumarið 1897, rekja upphaf ferðarinnar og kynni
þeirra félaga. Að auki mun Þóra greina frá þeim um 200 myndum eftir
Collingwood sem til eru í Þjóðminjasafni Íslands, en það eru bæði
vatnslitamyndir, teikningar og ljósmyndir.
Matthew Townend:
W.G. Collingwood and the Vikings
Í fyrirlestrinum er leitast við að setja pílagrímsferð W.G. Collingwoods
til Íslands árið 1897 í samhengi við rannsóknir hans á víkingatímanum.
Rannsóknir Collingwoods endurspeglast ekki einungis í útgefnum fræðiritum
um sagnfræði, fornleifafræði og textafræði heldur einnig í skáldsögum,
höggmyndum og, síðast en ekki síst, málverkum. Erindið mun veita yfirsýn
yfir ævistarf Collingwoods og veita innsýn í bæði fræða- og listaferil
hans.
Einar Falur Ingólfsson:
Þrír tímar og tilraun til að tengja þá saman
– Um samtalið milli verka okkar Collingwoods.
Í erindinu veltir Einar Falur fyrir sér nálgun W.G. Collingwoods í
vatnslitamyndum og ljósmyndum sem hann skapaði í Íslandsheimsókninni
sumarið 1897 og ber þær saman við ljósmyndirnar sem hann tók sjálfur á
sömu stöðum rúmri öld síðar, þegar hann ferðaðist milli staðanna sem
Collingwood vann á og lét hann vísa sér á myndefnin. Einar Falur veltir
fyrir sér muninum á huglægri og hlutlægri nálgun þeirra sem og samtali
þriggja tíma; tíma sögualdar, sem Collingwood leitaðist við að
endurspegla, tímanum í lok 19. aldar eins og hann birtist í myndum
Collingwoods, og loks samtíma okkar sem hann vinnur sjálfur með.

Uppskeruhátíð ReykjavíkurAkademíunnar og JPV útgáfu

Í tilefni af útgáfu á bókum Akademónanna Steinunnar Jóhannesdóttur og Guðna Th.
Jóhannessonar
Dagskráin verður í ReykjavíkurAkademíunni, Hringbraut 121, 4.hæð, miðvikudaginn 24.
nóvember kl. 20:00.
Allir velkomnir.

Steinunn Jóhannesdóttir kynnir bók sína Heimanfylgja.
Félagar í Schola cantorum undir stjórn Harðar Áskellsonar flytja lög við kvæði
Hallgríms Péturssonar
Guðni Th. Jóhannesson kynnir bók sína Gunnar Thoroddsen – Ævisaga
 Að lokinni dagskrá verða léttar veitingar í boði JPV útgáfu.
Bækunar verða til sölu að lokinni dagskrá og mun höfundar árita bókina að ósk gesta.

Áhrif rómversks réttar og kristinna hugmynda á Grágás

Málstofa Lagastofnunnar Háskóla Íslands, miðvikudaginn 24. nóvember kl. 12:00-13:00 í Lögbergi, stofu 101.

Rannsóknir Þjóðverja á íslenskri réttarsögu. Sigurður Líndal prófessor emeritus, hefur kennt réttarsögu við Lagadeild HÍ um árabil og er einn fremsti fræðimaður landsins á þessu sviði.
Hafliði Másson og áhrif rómversks réttar og kristinna hugmynda á Grágás. Hans Henning Hoff hdl. Rechtsanwalt, lauk doktorsprófi (Dr. jur.) við Ludwig-Maximillians Universitat Munchen í lok október s.l. og kynnir hér helstu niðurstöður ritgerðar sinnar. Í henni er sýnt fram á það að í Grágás gætir víða áhrifa rómversks rétta og kristinna hugmynda og að Hafliði Másson átti drýgstan þátt í skráningu þjóðveldislaga veturinn 1117/1118. Svo er einnig vikið að því hversu áhrifamikill Hafliði var í íslensku samfélagi eftir aldamótin 1100.
Fundarstjóri: Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við Lagadeild Háskóla Íslands.
Fyrirspurnir og umræður í lok fundar. Allir velkomnir.

Spurningaskrá um heimatilbúið, viðgert og notað

Þjóðminjasafn Íslands vinnur nú að söfnun heimilda um heimatilbúið, viðgert og notað. Tilgangurinn með þessari spurningaskrá er að kanna hvort og í hvaða mæli fólk gerir við búshluti, fatnað eða annað heima hjá sér, hvað það býr til sjálft og hversu mikið það notar hlutina eða endurnýtir. Þjóðminjasafnið vill hvetja fólk til að leggja söfnuninni lið og varðveita þannig mikilvæga þekkingu sem annars er hætt við að færi forgörðum.
Unnt er að sækja spurningaskrána á heimasíðu Þjóðminjasafnsins, www.thjodminjasafn.is og senda svör í tölvupósti á netfangið agust@thjodminjasafn.is.
Nánari upplýsingar veitir Ágúst Ó. Georgsson á ofangreint netfang eða í síma 530 2200.

Á þessu ári eru 50 ár síðan Þjóðminjasafn Íslands hóf söfnun heimilda um þjóðhætti með spurningaskrám. Spurt hefur verið um lífshætti, siði og venjur fyrr á tímum en einnig úr samtímanum. Svör heimildarmanna eru varðveitt í skjalasafni stofnunarinnar og slegin inn í stafrænan gagnagrunn minjasafna, Sarp.

Matthías Jochumsson á Kjalarnesi næsta laugardag

Næsta laugardag stendur Sögufélagið Steini á Kjalarnesi fyrir þjóðlegri
sögustund í Klébergsskóla á Kjalarnesi kl. 16.
Einkum verður fjallað um Matthías Jochumsson en hann var prestur á
Kjalarnesi 1866-1873. Gestir okkar verða m.a. Þórunn Erlu- og
Valdimarsdóttir, Jón Júlíusson, Geirlaug Þorvaldsdóttir og sr. Gunnar
Kristjánsson.
Öllum er frjáls aðgangur gegn 1000 kr. aðgangseyri fyrir fullorðna. Kaffi og heimabakstur innifalið

Þykir það ekki tilhlýðilegt í framhaldi af degi íslenskrar tungu 16. nóvember? Þema stundarinnar er þjóðskáldið Matthías Jochumsson.  175 ár eru liðin frá fæðingardegi hans, 11. nóvember  1835 og 90 ár frá dánardegi hans 18. nóvember 1920 og hann var prestur á Kjalarnesi árin 1866 – 1873 og bjó á Móum.
Við fáum góða gesti, Þórunni Erlu og Valdimarsdóttur, sagnfræðing og rithöfund, sem m.a. er höfundur  verðlaunabókarinnar „Upp á Sigurhæðir“ um ævi Matthíasar. Hún heldur erindi sem ber heitið: „Matthías Jochumsson – Einn frægasti nábúi Esju.“ Þá mun Jón Júlíusson leikari lesa upp ljóð eftir Matthías og þau Geirlaug Þorvaldsdóttir leiklesa úr Skugga-Sveini. Nemendur úr Klébergsskóla flytja tónlistaratriði og sr. Gunnar Kristjánsson flytur erindi sitt: „Maður á mörkum. Um Móaár séra Matthíasar  Jochumssonar.“ Öllum er frjáls aðgangur gegn 1000 kr. aðgangseyri fyrir fullorðna.

Veiðar og nytjar á rjúpu, gæs, önd og álft á Íslandi fyrr og nú

Fyrirlestur félagsins Matur, menning, saga, í
kvöld kl. 20 í ráðstefnusal 1-2 á Hótel Loftleiðum. Efni fundarins er:
Veiðar og nytjar á rjúpu, gæs, önd og álft á Íslandi fyrr og nú
Kaffiveitingar verða í boði og allir eru velkomnir.

Fuglafræðingarnir Ólafur K. Nielsen og Arnór Þ. Sigfússon kynna veiðar og
nytjar á Íslandi. Þetta er annar fundurinn í fundaröð félagsins um nytjar á
villtum dýrum í náttúru Íslands.

Afkynjun erfða um miðja 19. öld: forsendur og framkvæmd

Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, flytur fyrirlesturinn Afkynjun erfða um miðja 19. öld: forsendur og framkvæmd. Erindið er hluti fyrirlestraraðar hádegisfunda Sagnfræðingafélags Íslands sem ber nafnið „Hvað eru lög?”
Staður: Þjóðminjasafn Íslands,
Stund: Þriðjudaginn 23. nóvember frá 12:05 til 13:00
Aðgangur ókeypis og öllum opinn

Árið 1847 áttu íslenskir alþingismenn frumkvæði að því að erfðaréttur sona og dætra
yrði gerður jafn, í stað þess að sonur fengi tvo hluti á móti einum hlut dóttur,
eins og hafði verið hérlendis að minnsta kosti frá lokum 13. aldar. Röksemdir
alþingismanna voru á þá leið að jafn erfðaréttur væri í senn sanngjarn og réttlátur,
en jafnframt var fullyrt að foreldrum í landinu þætti slík tilhögun betri. Tillagan
gekk lengra en ný löggjöf í Danmörku, þar sem foreldrum var leyft að ráðstafa eignum
sínum jafnt, en var engu að síður samþykkt í stjórnardeildum í Kaupmannahöfn og varð
hluti af tilskipun konungs um erfðir á Íslandi frá 25. september 1850. Í erindinu
verður reynt að grafast fyrir um forsendur þessarar hugmyndar í íslensku samfélagi á
fyrri hluta 19. aldar en mestu rúmi varið í að greina framkvæmd laganna eftir því
sem fram kemur í skiptabókum og öðrum gögnum sem varða dánarbú og ráðstöfun þeirra.

Fjarskiptasafnið – síðasti sýningardagur!

Fjarskiptasafnið, sem er staðsett í gömlu Loftskeytastöðinni við
Suðurgötu, er í eigu og umsjá Þjóðminjasafns Íslands. Þar er fræðandi og
áhugaverð sýning fyrir alla aldurshópa sem segir sögu síma og fjarskipta í
tímaröð. Nú fer hver að verða síðastur að skoða sýninguna, en hún hefur
verið opin á sunnudögum í haust og er næstkomandi sunnudagur síðasti
sýningardagur hennar.
Sýningin er opin sunnudaginn 14. nóvember kl. 11-17, aðgangur er ókeypis
og allir velkomnir!

Fjarskiptasafnið, sem er staðsett í gömlu Loftskeytastöðinni við
Suðurgötu, er í eigu og umsjá Þjóðminjasafns Íslands. Þar er fræðandi og
áhugaverð sýning fyrir alla aldurshópa sem segir sögu síma og fjarskipta í
tímaröð. Nú fer hver að verða síðastur að skoða sýninguna, en hún hefur
verið opin á sunnudögum í haust og er næstkomandi sunnudagur síðasti
sýningardagur hennar.
Sýningin er opin sunnudaginn 14. nóvember kl. 11-17, aðgangur er ókeypis
og allir velkomnir!

Hádegisfundur stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála
boðar til hádegisfundar 7. desember í Odda st. 101 um bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings, Gunnar Thoroddsen. Ævisaga.
Allir velkomnir.

Gunnar ThoroddsenÁ fundinum verður rætt um endurkomu Gunnars Thoroddsen í stjórnmálin eftir
1970, stjórnarmyndunina 1980 og ár hans í stól forsætisráðherra, en óhætt
er að segja að þau hafi verið stormasöm. Sérstakir gestir fundarins eru
Friðrik Sophusson f.v. ráðherra og fv. varaformaður Sjálfstæðisflokksins
og Svavar Gestsson, fv. ráðherra og fv. formaður Alþýðubandalagsins. Þeir
voru samtíða Gunnari Thoroddsen á Alþingi. Friðrik tók við af Gunnari sem
varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1981. Svavar átti sæti í ríkisstjórn
Gunnars Thoroddsen 1980-1983. Þeir munu eiga samtal við Guðna og aðra
gesti fundarins um efnið. Þess má geta að bók Guðna Th. Jóhannessonar
hefur fengið tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki
fræðirita.

„Ókunnugir ferðalangar biðja ávallt um leiðsögumann“ Pílagrímsferðir um Sögustaði og myndir úr ferðalögum

Þriðjudaginn 16. nóvember kl. 12:05 mun Einar Falur Ingólfsson flytja
erindið “Ókunnugir ferðalangar biðja ávallt um leiðsögumann” –
Pílagrímsferðir um sögustaði og myndir úr ferðalögum. Aðgangur er ókeypis
og allir velkomnir.

Í erindi sínu mun Einar Falur fjalla um pílagrímsferðir sem listaverk
kveikja, út frá túlkun þeirra Williams Gershoms Collingwoods á stöðum sem
koma fyrir í Íslendingasögunum. Á sýningunni Sögustaðir – í fótspor W.G.
Collingwoods sem nú er í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands, og í samnefndri
bók, birtast myndir þeirra tveggja af stöðum sem oft láta lítið yfir sér
en eru hlaðnir sögulegri merkingu.
Á sýningunni má sjá úrval ljósmynda Einars Fals og að auki hluta þeirra
rúmlega 300 verka sem Collingwood málaði hér á landi, en ríflega helmingur
myndanna frá ferð hans eru varðveittar í Þjóðminjasafninu.
W.G. Collingwood kom til landsins til að mála myndir af stöðum sem koma
fyrir í Íslendingasögunum og um leið skapaði hann merkar heimildir um
íslenskan samtíma. Síðustu þrjú ár hefur Einar Falur notið leiðsagnar
Collingwoods á ferð sinni milli íslenskra sögustaða. Hann hefur farið
milli staða þar sem breski listamaðurinn vann og stuðst við myndverk hans
og skrif. Í ljósmyndum Einars Fals verður til samtal þriggja tíma; samtíma
áhorfandans í dag, samtíma Collingwoods árið 1897 og sögualdarinnar, sem
Bretinn hyllti í myndverkum sínum.
Í samnefndri bók, sem Þjóðminjasafn Íslands og Crymogea gefa út, birtast
enn fleiri myndir úr verkefninu, auk ítarlegs texta ljósmyndarans um
verkefnið, ljósmyndun, málaralist, ferðalagið og tímann.